fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Hinn slæmi faðir

Hin dæmigerða bílaauglýsing sýnir áreiðanlegan, efnaðan grásprengdan karlmann sem virðist eyða mesta tímanum sínum keyrandi um í eyðimörkum víðs vegar um heiminn í einhverskonar kosmísku ritúali þess á milli sem hann pikkar upp börnin og konuna og flytur þau af staðfestu á milli staða í loftbelgdri púpu. Þau horfa öll með aðdáun á hann í móki þeirra sem engar áhyggjur þurfa að hafa, en stálblátt augnaráð hans hvikar ekki frá veginum.

Mér var hugsað um þetta þegar ég tók á móti fjölskyldu minni á flugvellinum í Shanghai fyrir nokkru. Eðalvagninn þar var ryðgaður Volkswagen Santana, sem er staðalbúnaður hins kínverska leigubílstjóra, einnig kallaður Black Magic Cab. Í honum er enga loftpúða né öryggisbelti að finna, og öll fjölskyldan gat því óhindruð virt fyrir sér, reyndar í gegnum reykbólstra sígarettu bílstjórans, hinn æsilega Formúlu 1 kappakstur sem ferðalagið frá Pudong flugvelli niður í miðbæ Shanghai er.

Það merkilega við þetta er að þetta venst.

Komandi frá Íslandi þar sem menn eru handteknir fyrir utan leikskóla með illa uppsett barnasæti, var ekki laust við það að þarna fengi maður einkennilega kitlandi blöndu af ánægju og sektarkennd, þrátt fyrir að auglýsingarnar hefðu verið duglegar að innprenta í mann að þeir sem voguðu sér að setja börnin sín í bíl með færri en 8 loftpúða væru líklega glæpamenn eða í það minnsta stórkostlega vanhæfir foreldrar.

Að sjálfsögðu verðmetum við öryggi fjölskyldu ofar öllu, hinsvegar hefur runnið upp fyrir mér hér að markaðsvæðing öryggisins er kannski að nýta sér þennan veikleika fólks full mikið. Að nota sektartilfinningu til að selja öryggi, og þar að auki öryggi sem er oft frekar incremental í stóru samhengi hlutanna er svona móralskt séð alveg á jaðrinum.

Hér í Kína finnst mér ég vera að endurupplifa hina áhyggjulausu æsku þar sem einu öryggisnetin voru þau sem maður notaði sem innkaupapoka þegar maður var sendur hjálmlaus á hjóli að kaupa pott af mjólk í næstu mjólkurbúð.

Eflaust má einnig meta það áhyggjuleysi að verðleikum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home