Fyrir rúmlega 200 árum var breskt kaupskip á heimssiglingu á milli eyja í Suður-Kyrrahafinu að fylla farm sinn af brauðaldintrjám. Eftir að hafa legið við festar í Tahiti í tæpt hálft ár voru lestar skipsins fullar og ákveðið að halda heim á leið.
Farmenn skipsins voru hinsvegar ekki á eitt sáttir með þann ráðahag. Tahitibúar höfðu tekið þeim opnum örmum, og voru þeir vel flestir búnir að festa sitt ráð með heimasætum, og jafnvel búnir að láta flúra sig bak og fyrir að hætti innfæddra. Þótti þeim tilhugsunin um langa og stranga ferð aftur í napra vist á Bretlandseyjum lítt heillandi. Fór loks svo að þeir risu upp gegn skipstjóra skipsins, sem þeir sendu burt á opnum árabáti ásamt öðrum lagsmönnum, en sigldu svo sjálfir til baka til Tahiti með allt góssið.
Þessi atburður var síðar þekktur sem ‚Uppreisnin á Bounty‘, en svo hét skipið sem þeir tóku traustataki.
Það sem færri vita er að eftir að uppreisnarmenn komu aftur til Tahiti, þótti þeim óvarlegt að ílengjast þar, enda uppreisnir á skipum ekki teknar neinum vettlingatökum af breskum yfirvöldum. Fóru þeir því á flakk á Bounty með konum sínum, margar hverjar ekki sjálfviljugar, og enduðu loks á eyðieyju sem var vitlaust staðsett í kortum en hafði ágætis landkosti og þótti því fyrirtaks griðastaður.
Eyja þessi hét Pitcairn. Eftir að hafa sett upp bú þar, tóku þeir á það ráð að brenna skipið svo að engin sönnunargögn yrðu eftir, en dæmdu sjálfa sig á sama tíma í eilífa útlegð, enda engir aðrir ferðakostir í boði.
Það var ekki fyrr en 20 árum seinna sem skip kom aftur að Pitcairn eyju. Þá reyndust aðeins vera einn uppreisnarmaður enn á lífi, ásamt 9 konum og nokkrum börnum. Honum var gefin sakaruppgjöf, og héldu þau áfram að lifa á Pitcairn eyju sem var nokkru síðar sett undir bresku krúnuna.
Enn búa um 50 manns á Pitcairn eyju, allir afkomendur uppreisnarmannanna á Bounty, og komust ekki í fréttirnar aftur nema fyrir um 5 árum síðan, en þá fyrir allt annað.
Lengi vel hafði verið orðrómur um að sifjaspell væri landlægt á Pitcairn, enda erfitt að ímynda sér jafn inngróið samfélag. Alvarlegra þó var að þetta sifjaspell náði einnig til yngri barna, og fór svo að breskir dómstólar saksóttu um 12 karlmenn fyrir slíka kynlífsglæpi árið 2004, en sjálfsagt má ætla að það hafi verið drjúgur hluti vinnufærra manna á eyjunni. Helmingurinn af þeim var dæmdur í fangelsisvist, sem þeir fengu þó að afplána á sínu heimili. Flestir íbúar, þar með talið margar konur, höfðu lítinn skilning á þessum lagagjörningi, enda þekktu þau ekkert annað.
Nærri má láta að á Íslandi ríki samskonar hugsunarháttur hvað varðar samkrull viðskipta og stjórnmála. Kunningjasamfélagið hérna er svo sterkt að það er eflaust erfitt að feta sig áfram á öðrum hvorum af þessum brautum án þess að stíga á hitt. Líkt og með Pitcairn, þá eru það í dag aðallega útlenskir aðilar sem varpa ljósi á sifjaspellið og draga fram í dagsbirtuna óeðlið á bak við ráðahagi margra þessara útrásarvíkinga og pólítíkusa sem höfðu alist upp í einangrun á þessu litla skeri í Norður Atlanshafi.
Eftir að hafa tekið þjóðarskútuna traustataki eru þeir þó flestir komnir aftur og búnir að brenna skútuna, svo að tryggt sé að engir geti komið með kröfur á þá.
Kannski munu einhverjir verða dæmdir fyrir eitthvað misjafnt, en þeir munu væntanlega enda með að afplána þá dóma í heimavist. Jafnvel fá að stýra eitthvað af þessum fjölmörgu ríkisfyrirtækjum sem nú eru látin reka á reiðanum.
Og engum mun finnast það skrýtið.
Þetta hefur alltaf verið svona.