sunnudagur, 30. ágúst 2009

Gúrkur

Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég sá frétt um það að einhver skyldi hafa tekið sig til og ekið upp Bankastræti nýlega.

Ég man það vel sem krakki að oft var talað um þann möguleika að einhver væri nógu vitlaus til að keyra upp Bankastræti og Laugaveg. Eða jafnvel niður Hverfisgötu. Allt þetta töldust viðsjárverðir atburðir, og allir höfðu á takteinum eina eða tvær flökkusögur um slíkt sem hægt var að japla á á leið í skólann.

Heimsmyndin riðlaðist aðeins þegar farið var að leyfa akstur í báðar áttir á Hverfisgötu. Þetta var svona einsog sólmiðjukenning Kóperníkusar: Hin eilífa og sígilda regla hafði riðlast. Núorðið eru þessar tvær götur ekki lengur ying og yang Reykjavíkur og þar með alls heimsins í kringum allt hverfist, heldur krúttlegar smágötur í tómlegum miðbæ (þegar útlendinga nýtur ekki við) í lítilli borg í litlu landi með fullt af skuldum.

Mér fannst því eitthvað sætt að ennþá teldist það frétt að einhver álpaðist til að keyra upp einstefnu.

Mig minnir einnig að fyrir mörgum árum hafi bjórdós sprungið í frystikistu á Akureyri. Það var að minnsta kosti frétt þá. Eflaust má fletta henni upp á timarit.is. Spurning um hvort einhver bjórdós hafi sprungið í einhverri frystikistu um helgina.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Vík af fundi

Framvegis mun ég víkja af fundi hvenær sem ég tek mikilvæga ákvörðun um mig og mína.

sunnudagur, 2. ágúst 2009

Lögbann: Allt í plati

Mig grunar að lögbannskrafa Kaupþings á þessar upplýsingar sé ekki endilega tilkomin af einskærri ást við leynd og pukur.

Líklegra er að þarna séu lögspekingar að baktryggja sig gagnvart hugsanlegum málsóknum viðskiptavina. Nú geta þeir afsakað sig með því að þeir hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir dreifingu hins forboðna sannleika.

Ef lögbannsúrskurði er hnekkt, þá er spurning hvort ekki sé kominn grundvöllur til að 'leka' samsvarandi gögnum frá öðrum bönkum, svo að jafnræðis sé gætt. Ég held að menn muni ekki fá nokkurn botn í spilaborginni fyrr en það liggur fyrir.

Annars bendi ég hér á gamla færslu þar sem ég bendi á að því fer fjarri að bankaleynd sé einhver heilög kýr. Hún þjónar augljóslega einungis þeim sem hafa eitthvað að fela.