mánudagur, 27. apríl 2009

Pistill um kex

Þessa grein skrifaði ég í Mogganum fyrir tæpum 10 árum. Skrýtið hvernig heimurinn fer í hringi einhvernveginn, því að hún á sosum alveg jafnmikið við í dag einsog þá. Læt hana flakka til gamans:

ÍSLAND er furðulegt land. Einn daginn búum við í holum í jörðinni og hinn daginn erum við öll orðin verðbréfamiðlarar sem lifa í Netinu. Sumir koma fram og telja að við ættum að skikka alla þjóðina í tölvunám og selja heiminum óáþreifanleg rafmerki í ljósleiðara á meðan aðrir draga fram spakmæli á borð við að hugvitið verði ekki í askana látið og lofa því áþreifanleg gildi fisks, áls og orku af eljusemi sem hefði sæmt sér vel á sovésku áróðursplakati um næstu 5 ára áætlun. Einhversstaðar þarna á milli er hellingur af fólki sem ekki áttar sig fyllilega á atburðarásinni og veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Einsog þetta er lagt fyrir það, þá lítur það út fyrir að síðan Netið breiddist út um heiminn einsog eldur í sinu þá hafi öllum gildum verið snúið á hvolf og samfélagið sé að leysast upp í eitthvert þekkingarsamfélag sem ómögulegt sé að henda reiður á og sé jafnvel varasamt.
Það sem hefur kannski gleymst að benda á er að það er talsvert síðan við höfum lifað í þekkingarsamfélagi en við hér á Íslandi höfum bara verið dálítið blind á það. Þekkingin er nefnilega lík Aþenu, grískri gyðju þekkingar og listar: hún felur sig í hvunndagslegustu hlutum í kringum okkur en ef menn læra að þekkja hennar handbragð, þá fara menn að sjá nærveru hennar í öllu.

Til að færa rök fyrir þessu máli mínu, ákvað ég að velja af handahófi einhvern hversdagslegan hlut sem var innan seilingar þegar ég var að skrifa þessa grein. Fyrir valinu varð kexpakki sem var á borðinu hjá mér. Þetta er ósköp venjuleg kextegund sem heitir "Le Petit Écolier" frá fyrirtæki sem heitir LU og tilheyrir stóru fjölþjóðafyrirtæki í matvælagerð sem kallast Danone Group. Ágætis súkkulaðikex sem mig minnir að ég hafi borgað í kringum 200 krónur fyrir og þótti mér það alls ekki óeðlilegt verð.

Lítum hinsvegar nánar á hver er kjarni þessarar vöru: þarna er verið að blanda saman hveiti, eggjum, smjöri og súkkulaði og búa til úr þessu litla kexbita. Hver ætli hráefniskostnaður hafi verið fyrir þessi 150 grömm sem í pakkanum eru? Samkvæmt heimildum frá bandaríska landbúnaðarráðuneytinu, Agriculture Fact Book 1998, U.S. Department of Agriculture (http://www.usda.gov/news/pubs/fbook98/content.htm) þá er hlutfall hráefniskostnaðar sem hlutfall af útsöluverði fyrir kexvörur um 7% og fer lækkandi á hverju ári. Hér er ástæða til að staldra aðeins við. Séu þessar tölur réttar þá er ég sem neytandi að borga 194 krónur af 200 fyrir eitthvað annað en það sem endar í askinum mínum, og það sem meira er: mér finnst það fyllilega eðlilegt. En hvað er það sem gerist frá sveitabýlinu þar sem hráefnið er framleitt og þar til ég kaupi kexpakkann sem orsakar þessa 30-földun í verðmæti? Það er nákvæmlega hér sem andi Aþenu svífur yfir vötnum, því að það er að miklum hluta þekking sem vinnur sína vinnu þarna á milli og margfaldar verðmætið.

Ekki sannfærð? Lítum aðeins á ýmsa hluti sem hafa gerst á leiðinni frá hráefninu til mín:

Þessi ákveðna tegund af kexi er líklega afrakstur langrar vöruþróunar innan fyrirtækisins sem framleiðir það. Við þá vöruþróun hafa líklega unnið matvælafræðingar og efnafræðingar. Þeir hafa lagt afurðirnar í markvissar prófanir, þar sem bæði er prófað hvort mönnum líki bragðið og útlitið, hvaða aldursflokka þetta höfði mest til, passi að menn fái ekki einhver útbrot af þessu o.s.frv. Síðan hafa markaðsfræðingar og markaðssálfræðingar gert rannsóknir á hinum ýmsu mörkuðum þar sem til hefur staðið að dreifa þessari vöru og byggt upp markaðsáætlun hvernig sé best að markaðssetja hana. Þessi áætlun hefur verið lögð upp í hendurnar á auglýsingastofu þar sem hönnuðir og hugmyndasmiðir hafa lagt heilann í bleyti til að finna nafn á vöruna sem hentar hverjum markaði fyrir sig. Væntanlega hefur ljósmyndari verið fenginn til að mynda kexið í bak og fyrir, og síðan hafa umbúðir og margvíslegt prentefni verið búið til af grafískum hönnuðum og afurðir þeirra lagðar upp í hendurnar á tölvustýrðri prentsmiðju. Þýðendur hafa verið fengnir til að þýða þetta efni á hin ýmsu tungumál þeirra markaðssvæða þar sem vörunni verður dreift. Á sérhverju markaðssvæði hafa menn væntanlega einnig búið til markaðsherferð, kannski fengið handritshöfunda og leikstjóra til að búa til sjónvarpsauglýsingar, þar sem leikarar, myndatökumenn og hljóðmenn hafa komið við sögu. Eitthvert tónskáld hefur samið lag um þetta kex, sem hver skólakrakki á að geta lært eftir eina hlustun. Á sama tíma hafa umbúðirnar sjálfar eflaust verið búnar til úr matvælavænu plasti sem einhver efna- eða eðlisfræðingurinn hefur einkaleyfi á, og umbúðafyrirtækið sjálft örugglega risastórt og væntanlega með her manna í að finna skemmtilegri leiðir til að opna umbúðir og finna ný og betri efni til að pakka matvælum. Síðan er vörunni sjálfri dreift um allan heim í gegnum flókið dreifikerfi sem þó er væntanlega allt miðstýrt í gegnum tölvukerfi fyrirtækisins, sem einhver slatti af forriturum og tæknifólki vinnur við.

Hér sjáum við að á leiðinni frá hveitiökrunum hafa jafn ólíkar stéttir og efnafræðingar, rithöfundar, tónskáld, markaðsfræðingar og tölvunarfræðingar á einhvern hátt komið við sögu og átt sinn þátt í því að verðmæti hráefnisins 30-faldaðist. Var þá ekki heilt þekkingarsamfélag falið í þessum vesæla kexpakka? Menn geta vissulega deilt um siðfræðilegt gildi þessa kapítalíska hugsunarháttar, en persónulega finnst mér kexið gott.

Ef við snúum okkur nú aftur aðeins að Íslandi og stöðu þekkingar hér á landi, þá er ljóst að lengi virtist ekki ríkja mikill skilningur fyrir hlut hennar í hinu hversdagslega. Vissulega tala stjórnmálamenn í dag fjálglega um gildi menntunar og þörf fyrir nýsköpun í iðnaði, en því miður virðast gjörðir þeirra á einhvern hátt oftast missa marks. Það er einsog menn treysti sér ekki til að fjárfesta að ráði í neinu nema það sé áþreifanlegt og geti þannig skilið eftir sig minnisvarða, einsog eyðilögðu síldarþorpin forðum. Í dag er verið að hugsa um að búa til stóra virkjun og tilheyrandi álver fyrir einhverja tugi milljarða króna. Vissulega er mikil þekking fólgin í því að byggja þetta upp, en er það þekking sem er að lokum virkjuð og seld á margföldu verði? Ég held ekki. Eftir að þau eru komin í gang þá geta álver og virkjanir mallað áfram um ókomnar aldir, án þess að virkja snefil af þekkingu, nema þá kannski á mjög sérhæfðu sviði. Jafnframt eru slíkar fjárfestingar erfiðlega umbreytanlegar, sem þýðir það að ef markaðsverð á áli hrynur á næsta áratug, þá er lítið annað hægt að gera en annaðhvort tapa peningum á öllu saman eða loka búllunni.

Hvað væri hægt að gera með segjum 100 milljarða króna til að virkja þekkingu, og jafnframt ávaxta þessa peninga á ca. 5 árum? Það tekur u.þ.b. 3-5 ár eftir stúdentspróf að mennta einstaklinga að því stigi að þekking þeirra fer að öðlast verulegt verðmæti. Tökum því 30 milljarða og dælum því inn í háskólakerfið með því móti að við hreinlega borgum nemendum laun fyrir að mennta sig í ákveðnar brautir. Þannig væri hægt að fá ca. 8-10.000 vel lærða einstaklinga á næstu 3-5 árum. Notum síðan restina, þ.e.a.s. 70 milljarða, í frumfjárfestingar í þekkingarfyrirtækjum. Til dæmis má nefna að í bandarískum hátæknifyrirtækjum er ekki óeðlilegt að fyrstu fjárfestingar séu í kringum 2-3 milljónir dollara, sem er svona nóg til að borga um 10 manns sæmileg laun í 1-2 ár, á meðan verið er að þróa hugmyndir. Þannig mætti koma af stað um 30 fyrirtækjum, sem væntanlega hefðu nægilegt úrval af starfsfólki, þökk sé ofangreindu átaki okkar í menntamálum. Þessi fyrirtæki munu nú fara af stað með allskyns vöruþróun og væntanlega stefna á alþjóðlegan markað, og þá jafnframt leita að auknu fjármagni þaðan. Flest þessi fyrirtæki munu fara á hausinn.

Síðasta setning mín kann að vekja mikinn ugg hjá fólki, en í raun er þetta lykillinn að öllu saman. Í Silicon Valley í Bandaríkjunum er það agnarlítið hlutfall af stofnuðum hátæknifyrirtækjum sem að lokum ná því að verða skráð með þeim stóru á opinberum verðbréfamörkuðum. Flest þeirra eru leyst upp eftir 1-2 ára rekstur eða seld til stærri fyrirtækja. Engu að síður er hagsæld fólks í Kísildalnum sú mesta sem þekkist og enginn atvinnulaus lengi. Hvernig má það vera? Það er einfaldlega vegna þess að þau fáu fyrirtæki sem "meika það" verða gríðarlega stór mjög hratt, og staðreyndin að sú þekking sem verður til í "misheppnuðum" fyrirtækjum nýtist oftast aftur í nýju formi annars staðar. En komum nú aftur að Íslandi.

Segjum að af þessum 30 fyrirtækjum sem styrkt voru, þá séu það einungis tvö sem nái því stigi að verða raunveruleg alþjóðleg þekkingarfyrirtæki sem endi á því að fara á markað erlendis. Mér þætti það afar ólíklegt að samanlagt verðmæti slíkra fyrirtækja væri undir 70 milljörðum og að öllum líkindum væri það meira. Hvað hefur þá áunnist? Jú, upprunalega fjárfestingin er búin að skila sér aftur, hugsanlega með arði á nokkrum árum. Á sama tíma hefur orðið til stór stétt manna sem hefur það að atvinnu að virkja þekkingu sína og hefur reynslu af að koma hugmyndum í framkvæmd og leggjast í víking á alþjóðlegum markaði. Ætli eitt stykki álver og virkjun hefði verið betri fjárfestingarkostur? Ég hugsa ekki.

Og að lokum: hvernig kemur Netið inn í þetta? Einsog ég reyndi að sýna fram á með dæmi mínu um blessaða kexið, þá snýst þekkingariðnaður ekki endilega um tölvutækni. Til að mynda munu flest þeirra nýju fyrirtækja sem verða að risum í gegnum Netið ekki selja hugbúnað, heldur einfaldlega vörur og þjónustu sem menn þurfa og hafa alltaf þurft, til dæmis bækur, lyf og samskipti. Breiddin í þekkingu fólks sem þarf til þess að slíkt sé mögulegt nær langt út fyrir hið þrönga svið tölvutækninnar. Það sem gerir Netið að svo áhugaverðum kosti fyrir fyrirtæki er hinsvegar sá eiginleiki þess að vera alþjóðlegur og skilvirkur miðill sem er sérlega hentugur til að miðla þekkingu, og eins og ég hef vonandi sannfært ykkur um þá æskir þekkingin einskis annars en að fá að smjúga um allt og alla. Það eina sem þörf er á er að færa Aþenu nokkrar fórnargjafir og hún mun skila þeim margfalt til baka.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Baader-Meinhof: terrorist chic?

Ég man vel eftir því þegar ég var 10-11 ára að þá var alltaf verið að tala um þessi Baader-Meinhof samtök sem voru að gera allt vitlaust í Þýskalandi.

Mér fannst lógóið þeirra dálítið töff.

Ég verð að viðurkenna að á þessum árum vorum ég og besti vinur minn miklir laumubyltingarsinnar, og söknuðum þess mikið að hafa ekki verið fæddir svona 15 árum fyrr svo að við hefðum getað búið til götuvígi í París einsog pabbi og mamma (ég var reyndar 2ja ára í París á þessum tíma, þannig að ég get sosum alveg haldið því fram að ég hafi verið á svæðinu). Við reyndum m.a.s. að fá inngöngu í Fylkinguna en þeir virtust ekki hafa áhuga á byltingarframlagi 11 ára stráka.

Það næsta sem við komust að þjóna málstaðnum var að vera barnapíur eitt kvöld fyrir Ara Trausta, þáverandi formann Einingarsamtaka Kommúnista Marx Lenínista..hmm...eða var það klofnings Albaníu armur KHML eða KSML? hmm. alveg dottið úr mér. Man bara að var stór mynd af Hoxa í stofunni hjá honum.

Þetta eltist blessunarlega fljótt af manni þegar maður uppgötvaði að jafnöldrur okkar af hinu kyninu voru orðnar hrifnari af allt öðru en pólítík.

Það var hinsvegar skemmtilegt að sjá þetta tímabil og þessa atburði rakta í nýlegri þýskri mynd sem ég sá um daginn, sem heitir 'Der Baader-Meinhof Complex'.

Það sem er forvitnilegt er að myndin hefur fengið gagnrýni í heimalandi sínu, þar sem hún þykir ala of mikið á því sem er kallað 'terrorist chic'. Það er sosum engin nýlunda, þar sem Che hefur síðustu árin verið miklu meiri tískumógúll en byltingarforingi. Ég hafði þó ekki heyrt af Prada Meinhof áður, en það var víst tískulína frá Prada sem kom út árið 2001, en fékk snöggan endi eftir 11.sept sama ár.

Það er helst Róska frænka sem náði þessum status hér á landi. Ég man eftir henni í einhverjum fjölskyldumótum, og mér fannst hún svaka töff. Vissi ekki fyrr en seinna að líklega hefur hún komist ansi nálægt þessum neðanjarðarheimi. Það hefði ekki minnkað aðdáun mína á þeim tíma.

Ég held samt að þetta virki bara ef vonda fólkið er fallegt. Fólk virðist eiga auðveldara að sýna fallegu fólki samúð. Væntanlega snýst þetta allt saman um að geta einkennt sig við einhvern. Ef Che hefði verið feitur og ljótur, þá dreg ég það í efa að hann hefði endað á boli, nema þá í gríni.

Einhverjir unglingar sem horfa á þessa mynd í dag muni örugglega alveg getað sett sig í spor Andreas Baaders og Gudruns Essling. Kynlíf, byssur og hraðskreiðir bílar. Þarf maður eitthvað meira?

Það fer hinsvegar minna fyrir afleiðingum voðaverka þeirra.