fimmtudagur, 16. júlí 2009

Borgarahreyfingin fölpúðruð

Sonur minn 7 ára lenti í deilum við bandarískan kennara sinn um daginn. Sá hinn síðarnefndi stóð fastur á því að Ísland væri ekki partur af Evrópu, en sonurinn var hinsvegar alveg viss í sinni sök og gaf sig ekki.

Sjálfur man ég þegar ég flutti á svipuðum aldri til Íslands frá Frakklandi og skildi aldrei almennilega afhverju Ísland væri í Eurovison en samt ekki í Evrópu. Það var einsog einhver hefði gleymt að haka við eitthvað á einhverju eyðublaði.

Vonandi stendur þetta til bóta núna en var ansi naumt á tímabili.

Móðir mín útskýrði eitt sinn fyrir mér út á hvað existentialismi gengi út á, og sagði mér frá því að á sokkabandsárunum sínum í París þá hafi það verið í tísku hjá þeim að púðra sig hvítan. Fölleikinn átti að endursplega þá tilvistarkreppu sem sannur existentialisti væri alltaf í, því að sá ætti kvölina sem á völina. Það væri ekki hvað væri verið að taka ákvörðun um sem skipti mestu máli, heldur ákvörðunin sjálf.

Mér finnst sumir þingmenn Borgarahreyfingunar í dag standa eftir sem svona dálítið sjálfhverfir og fölpúðraðir existentialistar í tilvistarkreppu. Vonandi losna þeir við valkvíðann fljótt.

3 Comments:

Blogger Unknown said...

Það má færa veik rök fyrir því að Ísland sé landfræðilega að helmingi til á Ameríkuflekanum, en ekki mikið meira.

Ísland hefur alltaf verið Evrópuland, 100%. Það helgast af viðhorfi, menningu og ákvarðanatöku.

En svo má vera svona relativisti eins og kaninn sem kennir syni þínum. Relativistar geta samt haft rangt fyrir sér.

17. júlí 2009 kl. 04:29  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvað ertu gamall Kjartan?

Ísland byrjaði að keppa í Eurovision 1986.

21. ágúst 2009 kl. 03:37  
Blogger kjartan said...

Touché. Minningin hefur greinilega skolast til þarna :)

21. ágúst 2009 kl. 07:58  

Skrifa ummæli

<< Home