þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Hjákonum sagt upp

Hin alþjóðlega fjármálakreppa tekur á sig ýmsar myndir hér í Kína.
Í fréttum í dag var sagt frá Fan nokkrum, viðskiptamógúl í hafnarborginni Qingdao í austanverðu Kína. Maðurinn var stórtækur í viðskiptum en greinilega líka í einkalífinu, því að hann hafði komið sér upp hvorki færri né fleiri en fimm hjákonum auk eiginkonunnar. Hver hjákona kostaði hann um 5,000 RMB (um 80,000 ISK) í uppihaldi á mánuði auk leigu á íbúð fyrir hverja þeirra.

En eftir að skórinn tók að kreppa í lok árs 2008, sá hann fram á þörf á niðurskurði, og komst að þeirri niðurstöðu um að það þyrfti að 'downsizea' niður í eina hjákonu í bili. Nú var úr vöndu að ráða. Hverja ætti hann að velja? Eftir frekari umhugsun datt hann niður á það snjallræði að halda svona keppni á milli þeirra. Svona einskonar heimatilbúna Who Wants to Marry a Millionaire keppni.  Hann fékk lánaðan lítinn næturklúbb hjá vini sínum og lét hjákonurnar (sem þekktust) keppa þar innbyrðis í dansi, söng og drykkjuleikjum, þar til aðeins ein var eftir uppistandandi. Eftir það sagði hann hinum fjórum umsvifalaust upp ásamt íbúðum og fríðindum.

Ein kvennanna sem laut í lægra haldi var fjarri því ánægð með þennan ráðahag og hugði á hefndir. Einn daginn bauð hún Fan ásamt hinum hjákonunum í bílferð, svona sem einskonar sáttarför að skoða fjöllinn í kring. Í staðinn tók hún sig til og keyrði sem leið lá útaf fjallshlíð með alla hersinguna.

Kaldhæðnislega var sú eina sem lést í þeirri byltu hún sjálf, en hún hafði þó skilið eftir bréf sem skýrði frá öllum málatilbúnaði.

Eiginkona karlsins skildi við hann.

Hjákonurnar hurfu á brott og hann þurfti að borga fjölskyldu þeirrar sem dó bætur.

Það hlýtur að vera einhver metafýsísk mórölsk lexía falin í allri þessari sögu, en ég er satt að segja algjörlega búinn að missa sjónar af henni :)

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Á Íslandi farast farþegarnir, en þeir sem sitja undir stýri og RÁSA-ÚT-af sleppa vel.

18. febrúar 2009 kl. 06:04  
Blogger Iceland Today said...

Vá. Þvílík saga.

3. apríl 2009 kl. 01:51  

Skrifa ummæli

<< Home