mánudagur, 3. nóvember 2008

RÚV og menningarleg fjárfesting

Nú er rætt um að taka RÚV af auglýsingamarkaði, og þá til að koma auglýsingarásum til hjálpar. Ég vildi hinsvegar líta aðeins öðruvísi á málin. Undanfarið hafa menn mikið rætt um nauðsyn þess að endurbyggja okkar þjóðfélag og hlúa að þeim vaxtarbroddum sem í framtíðinni geta gefið vel af sér. Menning er eitt af þeim, og það hefur sýnt sig að íslensk menning getur hæglega orðið útflutningsvara (Björk, Sigurrós, CCP, Latibær, Arnaldur Indriðason, etc..). Það er ljóst að samkvæmt lögum hlýtur hlutverk RÚV að vera stórt í þessum málum. Staðan er hinsvegar sú í dag að hluti af þeim skattpeningum og auglýsingapeningum sem koma inn í formi afnotagjalda fara í að kaupa erlent efni fyrir dýrmætan gjaldeyri, og ég fæ ekki séð hvernig þau útgjöld koma íslenskri menningu neitt við né hvernig þau geti talist fjárfesting í þá áttina.

Kannski er hugmyndin að influtta efnið sjái til þess að fólk hangi óvart nógu lengi fyrir framan sjónvarpið til að slysast til að horfa á íslenskan þátt. Einsog t.d. n.k. miðvikudag þar sem er einungis einn innlendur þáttur í boði (fyrir utan fréttir), Kiljan, og það seint um kvöld.

Mig grunar hinsvegar að kostnaðurinn við kaup á erlendu efni sé sambærilegur við auglýsingatekjurnar, sem þýði það í raun að auglýsingarnar gera lítið annað en að fjármagna erlenda dagskrágerð (hér má alveg leiðrétta mig, tókst ekki að finna neina sundurliðun á útgjöldum í ársskýrslum). Það mætti því alveg eins sleppa því, og láta RÚV einbeita sér alfarið að gerð innlends efnis (sem nota bene má alveg vera léttmeti). Ég hugsa að margir væru sáttari við nefskattinn í því tilfelli.

Það eru að eiga sér stórkostlegar breytingar á fjölmiðlaumhverfi, sem bæði gerir framleiðslu og dreifingu efnis margfalt ódýrari en áður. Það ætti því að vera hægt að framleiða mun meira af efni en áður, og gera það aðgengilegt öllum heiminum.

RÚV á sýna smá metnað til að  vera ein af útungunarstöðvum íslensks afþreyingariðnaðs og hjálpa að koma honum á framfæri heima sem erlendis frekar en að vera heimsk myndveita sem matar okkur á erlendu léttmeti.

Núverandi og tilvonandi Internet-kynslóð mun svo ekki eiga í neinum erfiðleikum með að finna sér alla þá erlendu afþreyingu sem hún girnist á öðrum stöðum en hjá RÚV sakni hún hennar.

Hér má hinsvegar aðeins sjá dæmi um einfalda útfærslu á nútímafjölmiðli: lofi.tv. Litlar myndklippur frá Icelandic Airwaves, dreift á youtube, publishað á bloggi...gæti ekki verið mikið einfaldara.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þakka þér fyrir pistilinn og er ég hjartanlega sammála. Ég vil benda þér á að hjá RÚV liggja um 20 heimildamyndir ef ekki fleiri, sem er búið að greiða fyrir en eru ekki sýndar því þá fyrst þegar þær eru sýndar gerist mínusfærslan í bókhaldinu. Slíkar bókhaldskúnstir draga mjög mátt úr allri sköpun. Svipað mátti Ax-film líða þegar sýningu myndaflokksins Allir litir hafsins var frestað til að fá hagstæðari tölur í bókhaldið. RÚV ætti að sjá sóma sinn í því að hvetja en ekki letja íslenska kvikmyndagerð.

5. nóvember 2008 kl. 18:06  

Skrifa ummæli

<< Home