sunnudagur, 27. janúar 2008

Til Varnar Bönkunum

Nú sem bankar og fjármálafyrirtæki hér á Íslandi standa höllum fæti, er ekki laust að maður verði var við ákveðna Þórðargleði í samfélaginu. Það virðist vera einhver dulin ánægja við að sjá þá sem hafa hreykt sig hátt falla af stalli. Ég verð þó að viðurkenna að þrátt fyrir að ég hafi aldrei verið sérlega spenntur fyrir fjármálavafstri almennt og á yfirleitt erfitt með að skillja þá gríðarlegu þörf fyrir auðsöfnun sem virðist drífa þá sem veljast þar til starfa, þá hef ég vissa samúð með þeim.

Alþjóðleg fjármálastarfsemi einsog hún er stunduð í dag er gríðarlega erfitt og krefjandi starf. Þau hugtök og líkön sem menn eru að nota þar eru byggð á flókinni stærðfræði sem er ekki á allra færi að átta sig á. Inn í þessi líkön þarf svo að setja inn allrahanda upplýsingar og hagtölur sem mikil vinna er að sanka að sér, greina og matreiða í það form sem líkönin þurfa. Þegar við þetta bætist að öll þessi fyrirtæki eru í gríðarlegri samkeppni við hvort annað, þá er ljóst að hið hnattræna fjármalakerfi er eitt það mest kaótíska og illskiljanlega fyrirbæri sem þekkist í samfélaginu. Í dag er það svo að það er mun auðveldara að spá fyrir um veður næstu daga, en verð á olíutunnu næstu mínúturnar.

Einhverntímann las ég hugleiðingar um það að ef háþróaðar verur frá öðrum hnöttum kæmu til jarðar, myndu þær væntanlega reyna að hefja samræður við háþróuðustu veru á jörðinni. Í þeirri sögu enduðu þær með að reyna að tala við upplýsingakerfi fjölþjóðafyrirtækja frekar en einstaka menn.

Greiningardeildirnar hafa reyndar sérstaklega verið hafðar að háði og spotti, enda spáðu þær glaða sólskini þegar stormurinn skall á. Lái þeim það hver sem vill, en raunin er sú að ef einhver greiningardeild í heiminum hefði haft þessa vitneskju undir höndum fyrirfram, þá væri viðkomandi banki eflaust orðinn sá stærsti í heimi á örfáum vikum, enda hefðu þau þá geta nýtt sér þær upplýsingar til að græða hressilega á falli annara. Málið er að flest stærðfræðileg fjármálalíkön eru góð í að spá fyrir hægfara og átakalitlum breytingum en eiga mun erfiðara með að spá fyrir skyndilegum og miklum breytingum. Þessu má líkja við jarðfræði. Jarðfræðingar geta fylgst og spáð fyrir hægu risi jarðskorpu eða reki jarðfleka. Þau geta jafnvel spáð því að einhver mikill skjálfti muni eiga sér stað næstu 200 árin, en að spá því á hvaða degi og hvar er enn langt fyrir utan getu reiknilíkana.

Staðreyndin er hinsvegar að sú þekking og fjárstreymi sem kemur af bönkunum hér á landi er öllum til góðs, og er nauðsynlegur áfangi í umbreytingu Íslands í nútíma þekkingasamfélag. Þó margur einstaklingurinn verði af aurum api, þá gildir það ekki um bankanna sjálfa sem fyrirbæri. Jaðaráhrif þeirra eru mun meiri en áhrif tómrar þjóðvegasjoppu eða gat á fjalli. Það ætti því engin að fagna slæmu gengi þeirra, heldur frekar að vona að þeir veðri þetta af sér.

Greiningardeildirnar mættu hinsvegar kannski temja sér meiri hógværð í yfirlýsingum og hafa hin fleygu orð heimspekingsins Wittgensteins að leiðarljósi: “What can be said at all can be said clearly; and whereof one cannot speak thereof one must remain silent” …já, eða þá tamið sér loðið orðalag íslenskra veðurlýsinga: “Skýjað með köflum, breytileg átt, úrkoma í grennd

1 Comments:

Blogger Kristján Valur said...

Æ, e.t.v. gátu reiknilíkönin ekkert vitað, en mennskir menn sem fylgdust með skuldasöfnun bandarískra heimila vissu vel hvað var í uppsiglingu þar.
Því miður eru skuldabréf og afleiður svo þvers- og krusstengt að til að forða sér hefðu menn þurft að selja meir og minna allt fyrir gull. Já eða pylsur.

28. janúar 2008 kl. 23:27  

Skrifa ummæli

<< Home