mánudagur, 10. desember 2007

Meira um trúboð í skólum

Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn hálf hissa á því hversu vel upplýstum og víðsýnum mönnum einsog Agli Helgasyni (*) virðist vera fyrirmunað að skilja sjónarmið þeirra sem vilja færa trúboð úr skólum og yfir til þar til gerðra trúarstofnana.

Persónulega hef ég haft reynslu af þremur mismunandi skólakerfum í gegnum árin: hið franska, bandaríska og svo íslenska.

Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar ég fór í minn fyrsta tíma í 8 ára bekk í Hlíðaskóla þegar ég var 7 ára, og var þá tiltölulega nýfluttur frá Frakklandi. Ég man að skóladagurinn átti að byrja með morgunbæn. Þó ég hafi verið frekar ungur að árum, þá var ég aldeilis ekki á því að taka þátt í helgihaldinu. Líklega var það útaf uppeldi heima fyrir, en á þeim árum var ég frekar mikill aktívisti í þessum efnum þó ég hafi mildast mikið með árunum. Ég og kennarinn ræddum þetta aðeins því henni var illa við að ég tæki ekki þátt, og ég sagði henni sem væri að ég teldi mig ekki trúaðan og gæti því ekki með góðri sannfæringu farið með Faðir Vorið. Við sammældumst um að ég myndi í það minnsta loka augunum á meðan á bæninni stæði og ekki verra ef ég myndi hreyfa varirnar, svo að þetta liti vel og friðsamlega út allt saman. Augunum lokaði ég, en vörunum hélt ég herptum :)

Í frímínútunum eftir þessa uppákomu uppskar ég ómælda athygli frá öðrum bekkjarfélögum. Vissulega hefðu þetta geta verið frekar pínlegar aðstæður fyrir fyrsta tímann minn í bekknum, en krakkarnir voru frekar hissa á þessu og í raun fullir aðdáunar að ég skyldi hafa staðið upp í hárinu á kennaranum.

Í dag finnst mér þetta frekar broslegt allt saman, en þetta sýnir þó að jafnvel á unga aldri þá geta menn verið með sannfæringu og staðið við hana.

Nokkrum árum seinna lét ég mig hafa það að fara í eitt skipti í sunnudagsskóla á Laufásveginum því að ég hafði heyrt af því að þar væri hægt að fá ókeypis nammi og horfa á teiknimyndir. Svona er maður mikill tækifærissinni.

Í Frakklandi ríkir sterkur aðskilnaður ríkis og kirkju, og eru hverkyns trúartákn eða trúarstarfsemi bönnuð í skólum. Þetta er arfleifð frá frönsku byltingunni og Napóleon, og þótti mikið húmanískt skref á sínum tíma. Ennþá daginn í dag er þessari hefð fylgt eftir, einsog þegar íslömskum stúlkum var bannað að hylja andlit sitt í frönskum skólum fyrir nokkrum árum. Kannski er það of strangt? Ég veit það ekki.

Í Bandaríkjunum (og öðrum alþjóðlegum skólum sem margir hverjir fylgja sömu stefnu), þá ríkir sama hefð, jafnvel þótt að Bandaríkjamenn séu líklega með trúræknustu þjóðum. Örsökin þar liggur væntanlega í því hversu margvíslegar trúarskoðanir eru til, og því ekki hægt að reka neina ríkistrú. Þar fullnægja menn þessa uppeldisþörf í kirkjum og sunnudagsskólum, og allir lukkulegir með það.

Krakkarnir mínir fara hér í alþjóðlegan skóla. Þar eru krakkar sem koma frá Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Hong Kong, Singapore, etc. Ég get ekki ímyndað mér hvar þau ættu að byrja í trúboðinu, enda er ekkert um slíkt. Samt eru þetta allt saman alsælir krakkar og afskaplega ljúf. Þeim er kennt að vera góð við hvort annað og bera virðingu fyrir allt og alla, konur með hár og kalla með skalla. Ef einhverjir krakkar hafa einhvern sérstakan hátíðisdag frá sínu landi þá eru þeir hvattir til að halda erindi um það fyrir hinum krökkunum, segja þeim frá sínum hefðum og finnst öllum það stórmerkilegt og áhugavert. Þannig hefur hróður íslenskra jólasveina borist til Shanghai og á örugglega eftir að berast þaðan inn á hin margvíslegu heimili.

Þetta er ekkert voða flókið og engum virðist verða meint af. Ég efast um að þjóðfélagið fari á hlið við þetta og úr skólunum komi skyndilega hjarðir af froðufellandi siðlausum barbörum sem brenni kirkjur og stundi mannfórnir.

Það vill nefnilega gleymast að jafnvel krakkar geti haft sannfæringu, þótt að sumum virðist þykja best að svo væri ekki og engin sérstök ástæða sé til að virða það.

(*) Sé það núna að líklega hef ég haft hann Egil fyrir rangri sök.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Frábær pistill sem hún Soffía var svo vinsamlega að benda á á blogginu mínu. Kær kveðja frá Akureyri, Ingolfurasgeirjohannesson.blog.is

11. desember 2007 kl. 03:19  

Skrifa ummæli

<< Home