þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Reykjavík, hóra vestursins

Samkvæmt síðustu tölum, er fjöldi Shanghaibúa eitthvað yfir 20 milljónir. Shanghai er því ein af allra stærstu borgum heims. Samsetning íbúa er líka æði skrautleg. Allt frá fátækustu farandsverkamönnum upp í ríkustu einstaklinga Kína. Jafnframt er millistéttin hér ein sú stærsta, og fjöldi útlendinga einnig.

Shanghai á sér líka skrautlega sögu. Hún hefur verið aðalmiðstöð viðskipta við meginland Kína síðan á 19. öld á dögum Ópíumstriðsins, þegar Bretar reyndu að jafna viðskiptahallann sinn við Kína með því að gera þá alla að eiturlyfjafíklum. Hún var lengi vel stjórnuð af öðrum þjóðum, sem skiptu henni á milli sín einsog afmælistertu. Þannig var franski hlutinn byggður upp að hætti Hausmanns, og vann sér þannig inn nafnið "París austursins". Önnur starfsemi og þjónusta við aðkomumenn gaf henni hinsvegar nafnið "Hóra austursins".

Það merkilega við þessa borg er að miðað við hversu mikil skemmtanaborg og suðupottur hún er, þá er þetta með allra öruggstu borgum sem ég hef lifað í. Þegar maður labbar heim eilítið hífaður um miðja nótt eftir einhvern glauminn, þá er yfirleitt eina fulla manneskjan sem verður á vegi manns maður sjálfur, og engum dettur í hug að bögga þig nema kannski einstaka betlari.

Og ekki stafar þetta öryggi útaf því að hér ríki einhver heragi, fjarri því. Einu löggurnar sem maður sér hér dags daglega eru umferðarlöggur, og á nóttinni sér maður þær aðallega sofandi í lögreglubílunum sínum sem þær hafa lagt á einhverjum rólegum stað til að fá frið.

Innfæddur Shanghaibúi sem ég bryddaði uppá þessu við, tjáði mér að Shanghai hefði nokkra sérstöðu með þetta. Hann vildi meina að Shanghai hefði alltaf verið miðstöð viðskipta, og þeir sem standa í kaup og sölum vita að óöryggi er ekki gott fyrir viðskiptin. Þannig hafi myndast einhverskonar menning sem sér um sig sjálf og hefur haldist þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu.

Ég finn það núna þegar ég á leið til Íslands, hvernig menningin þar er allt öðruvísi og mun taugastrekktari. Ég held reyndar að það hafi ekki sérstaklega breyst á milli ára, en eini munurinn er kannski að fólki fjölgar og þegar skemmtanamenningin stefnir öllum á sama stað á sama tíma, þá verður þéttleikinn meiri og stemmingin eftir því.

Ég hef alltaf búið í miðbæ Reykjavíkur, og hef satt að segja verið nokkuð sáttur við þetta ástand, enda hafa svefnbæjir alltaf gert mig syfjaðan (sem er væntanlega tilgangur þeirra). Ég finn það samt núna eftir að hafa verið hér í Shanghai í um 2 ár, að Íslendingar, sérstaklega á djamminu, mættu alveg læra að slaka aðeins á. Allt í lagi að fara út á lífið, en kannski óþarfi að láta alltaf einsog þetta sé þeirra síðasta stund.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home