fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Lúftgítarinn loks taminn

Á mínum unglingsárum átti ég við vissa tilvistarkreppu að stríða. Í plötusafni eldri systkyna lágu það sem Frakkar myndu kalla les monstres sacrés rokksögunnar, rafmögnuð ofuregó sem höfðu þrammað í gegnum sjöunda og áttunda áratuginn með miklum látum og fótspor þeirra lágu á víð og dreifð einsog svo mörg tónlistarleg Ásbyrgi. Hljómsveitir einsog Led Zeppelin, Deep Purple, Rolling Stones og goðsagnaverur einsog Jimi Hendrix og Eric Clapton. Tíðarandinn við lok áttunda áratugarins vildi hinsvegar snúa þessu á hvolf og nú var málið að gera frekar en að geta. Það var allt gott og blessað, en hinsvegar láðist að geta þess að lúftgítarleikur var mun átakaminni með þessari nýju tónlist. Það var sosum hægt að hamra sæmilega undir Sex Pistols eða Clash, en tilþrifin voru einhvernveginn ekki alveg jafn hetjuleg. Ég tala nú ekki um það þegar maður hægt og hægt sökk í innhverfari tónlist einsog Brian Eno og Bauhaus eftir því sem maður vandaði sig við að vera sannur existensíalískur unglingur. Að lokum fór svo að mér fannst öll gítarsóló afskaplega púkó, og allt sem innihélt slíkt sett vel aftast í bunkann. Tónlist morgundagsins skildi skrifuð í tölum.

Því fór svo að lúftgítarinn var hengdur upp í rykugum skáp í hugarfylgsninu og gleymdist fljótt, þrátt fyrir að Sykurmolar reyndu að lífga hann upp á tímabili.

Væntanlega hefði hann hangið þar áfram það sem eftir er, hefði mér ekki áhlotnast fyrir stuttu tölvuleik sem spilaður er á leikjatölvum einsog PlayStation 2 og fleirum sem kallast Guitar Hero. Þrátt fyrir að þessi leikur hafi komið út fyrir nokkrum árum, hafði ég aldrei haft tækifæri til að prófa hann fyrr en nú. Fyrir þá sem ekkert vita um þennan leik þá samanstendur hann af litlum plastgítar sem á meira skylt við rafukulele, sem er ekki beint til að auka virðuleika manns við spilamennskuna, en að svo komnu verða menn að hrökkva eða stökkva. Á skjánum er svo hægt að velja hin og þessi rokklög, sem öll eiga það sammerkt að innihalda ofurhetjuleg gítarsóló. Málið er svo að reyna að spila þessi sóló skammlaust og helst með sem mestu tilþrifum og sveifla hárum ef einhver eru. Í einföldu máli sagt, þá er þetta karaoke fyrir lúftgítarleikara.

Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef spilað jafn ávanabindandi tölvuleik, og hef þó spilað þá marga í gegnum árin. Allt í einu vaknaði uppúr værum blundi einhver unglingur sem sótti lúftgítarinn úr skápnum, steig ókeikur á upplýst sviðið með 100,000 vött að baki og 100,000 öskrandi grúppíur fyrir framan sig og gaf í.

Væntanlega er þetta allt dularfullur partur af gráa fiðringnum, en ég mæli engu að síður með því að allir þeir sem hafa lítinn bældan lúftgítarleikara inni í sér prófi þetta að minnsta kosti einu sinni. Krakkarnir mínir hafa líka óstjórnlega gaman af þessu, þannig að brátt verðum við komnir með fullgilda lúfthljómsveit.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Thank you for that mental image.

23. nóvember 2007 kl. 02:03  

Skrifa ummæli

<< Home