mánudagur, 3. desember 2007

Eilífðar smáblómið netvætt

Þegar sumir réttlæta fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, þá vilja þeir meina að slíkar fjárfestingar skili sér alltaf í tímans rás þar sem þær auka þjóðfélagslega hagkvæmni.

Nútímavegir liggja hinsvegar meira og meira í hinum rafræna heimi. Þar á mestur hluti þjóðfélagsumræðu sér stað í dag. Þar ákveða menn hvaða mynd þeir ætla að sjá, hvaða tónlist er áheyrileg og hvaða bók er vert lesa. Þar sækja menn í daglegar fréttir, skiptast á kjaftasögum og þar svala sumir kynfýsn sína. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er hin rafræni heimur farinn að endurspegla hið mannlega samfélag og bæta þar við nýjum víddum.

Ef við beitum sömu hagkvæmnis rökum og áhugamenn um bættar samgöngur á þenann nýja vettvang menningar, þá væri hægt að týna saman nokkur þjóðleg smáverkefni sem mér fyndist verðugt að leggja pening í, þótt að kannski sé erfitt að reikna út arðsemina í krónum:

Íslensk Orðabók

Í dag get ég flett upp hvaða ensku orði sem er, t.d. a dictionary.com, og fæ þar merkingu orðsins úr fjölmörgum orðabókum, samheitaorðabókum og orðsifjabókum. Þetta er ókeypis þjónusta sem menn nota m.a.s. stundum án þess að vita af því einsog þegar Microsoft office flettir upp orðum á netinu. Vissulega liggur gríðarleg vinna og fjárfesting í gerð orðabóka, en þær eru samt í eðli sínu þjóðfélagslega hagkvæmar, þar sem þær treysta það mál sem menn nota til að skiptast á hugsunum, sem er jú grunnur menningar. Því finnst mér að ríkið eigi að leysa slík uppflettirit undan höfundarrétti og gera þau aðgengileg á netinu öllum að kostnaðarlausu. Flest þessi rit eru nú þegar aðgengileg með þeim hætti fyrir skóla, en aðrir þurfa að borga áskrift. Það eru ekki beint peningarnir sem vefst fyrir mér í þessu tilfelli, heldur frekar hversu auðvelt sé að fletta upp upplýsingum. Ég er líka nokkuð viss um að fermingarbörnin myndu eftir sem áður fá nokkur svona eintök á hverju ári, og ætti það að tryggja einhverjar tekjur.

Google Earth

Þegar ég var krakki þótti mér alltaf gaman að landabréfum, því að í þeim bjó einhver dulúð og von um ókönnuð lönd. Hinsvegar þóttu mér landafræðitímar í skóla skelfilega leiðinlegir, og tókst mér aldrei að leggja á minnið hvað allar þessar sýslur og hreppir hétu. Landafræði styður samt við bakið á fjölmörgum öðrum fræðum og það að geta sett upplýsingar í hnattrænt samhengi eykur skilning manns á hlutum allt frá dreifingu siðmenningar yfir til hvernig viðrar á morgun. Í þessu ljósi er Google Earth stórkostlegt fyrirbæri og ég hef eytt ófáum tímum í að týnast í öllum þeim aragrúa af upplýsingum sem það gefur aðgang að.

Eitt er það þó sem hefur alltaf angrað mig, en það er hversu slæm íslensku gögnin eru. Þar eru einstaka háupplausna myndir, en mest af landinu er hinsvegar í slæmri upplausn, sumt tekið að vetri til og sumt á sumrin, og hæðarupplýsingar líka slæmar. Ég er hinsvegar nokkuð viss um að allar þessar upplýsingar séu til á tölvutæku formi í góðri upplausn í stofnunum einsog Landmælingum Íslands. Væri það ekki kjörið að veita Google aðgang að þessum gögnum? Rómantísku skáld 19du aldar kynntu undir sjálfstæðisbaráttunni með því að gera myndir af íslensku landslagi ljóslifandi í orðum. Á 21. öldinni ættum við væntanlega að gera það sama með því að leyfa börnum okkar að fljúga þar um í sýndarheimi, hvar sem þau eru annars stödd í heiminum.


Íslendingar eru duglegir að tileinka sér nýja tækni og lætur nærri að Þjóðin verði brátt öll á Facebook. Hið margslungna íslenska tensglanet loks afhjúpað, hverjir hafa sofið hjá hverjum, hvenær eða aldrei. Hverjir eru vinir, frændur eða fjendur. Þetta rafræna samfélag einskonar sósial spegilmynd litningagrunns Decode. Hugurinn og holdið komið á rafrænt form. En ef þetta sýndar-Ísland á að hafa einhverja stoð, þá er ekki verra að gefa aðgengi að því sem liggur til grundvallar menningunni okkar: málið og landið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home