fimmtudagur, 17. apríl 2008

Kína vs. Heimurinn


Það hafa margir falast eftir upplýsingum frá mér um allt þetta uppistand í kringum Tíbet. Ég hef í raun haft afskaplega lítið um það að segja, þar sem ég telst seint til sérfræðings í þeim málum, jafnframt sem það virðist vera nokkuð erfitt að átta sig á öllum staðreyndum í þessum málum.

Það er þó eitt sem ég get kannski lagt af mörkunum, en það er að lýsa aðeins tíðarandanum og afstöðu venjulegra Kínverja um þetta allt saman. Fyrir það fyrsta, þá held ég að margir á vesturlöndum og þar með talið á Íslandi hafi afskaplega miklar ranghugmyndir um hvunndagslíf og hugðarefni Kínverja almennt. Margir virðast halda að hér sé ennþá einhverskonar stalínískt þjóðfélag, þar sem kúgaður lýðurinn hafi sig lítið frammi og þori vart að ræða sín á milli af hræðslu við að uppljóstrarar sendi þá í endurhæfingu út í sveit.

Menn þurfa ekki að dvelja hér lengi til að komast að því að þessi sýn er ansi fjarri raunveruleikanum þótt að þetta kunni að hafa verið tilfellið fyrir 30-40 árum. Þar með er ekki sagt að Kína búið við samskonar lýðræði og tjáningarfrelsi einsog menn eru vön heima. Hinsvegar eru Kínverjar alveg duglegir í að láta heyra í sér, og sér í lagi er Internet kynslóðin ansi fyrirferðamikil, stolt og hávær, enda er hvergi að finna jafn marga Internet notendur á byggðu bóli einsog hér.

Á sama tíma er Kína sem land afskaplega margbrotið, jafnt menningarlega sem efnahagslega. Partar einsog Hong Kong og Taiwan búa við mikla sjálfstjórn og hagsæld, þótt að þau séu efnahagslega og menningarlega tengd óaðskiljanlegum böndum við Kína. Aðrir hlutar einsog Tíbet og Xinjiang eru menningarlega frábrugðin, en efnahagslega mjög veikburða og í raun mjög svo háð ríkari héruðum. Þetta púsluspil hefur alltaf reynst flókið, og er saga Kína í gegnum árþúsundin nákvæmlega sagan um hvernig hægt er að halda ölllum þessum brotum saman eða missa þau frá sér.

Þegar Kínverjar líta yfir síðustu aldir, þá bera þau nokkurn kala til Vesturlanda almennt. Síðasta keisaraveldið leið undir lok við aldamót 19du og 20tu aldar, og á þeim tíma nörtuðu Bretar, Frakkar, Bandaríkjamenn, Rússar og Japanir í hningnandi heimsveldið frá öllum áttum. Bretar gerðu Kínverja gagngert að ópíumfíklum til að rétta við viðskiptahalla sinn á 19du öld og Japanir frömdu ólýsanlega stríðsglæpi hér á fjórða áratug 20tu aldar. Enn sjást leifar frá þessu hér í Shanghai, þar sem borginnni var snemma á 20tu öld skipt upp í protectorate milli þessara landa, og bera mörg hverfin ennþá merki þess.

Þó að svona ‘victimization’ sé aldrei endilega gott hugarnesti fyrir sjálfsmynd þjóðfélags, þá er það engu að síður staðreynd að hugarfarið er þannig. Borgarastríðið og valdataka Maó um miðja 20tu öld var svona endapunkturinn á þessu ferli, og þótt að flestir Kínverjar líti á menningarbyltinguna sem skelfilegan kafla í sögu sinni ásamt ýmsu fleiru í sögu síðustu 50 ára, þá kunna þeir að meta það að Maó skuli hafa náð púslunum aftur saman. Í raun upphófst með honum einskonar nýtt hugarfarslegt keisaratímabil, eins og hafa verið við líði í gegnum árþúsundin.

Stefnumörkun síðustu 20 ára í átt að óbeisluðum kapítalisma hefur svo rifið ótrúlega marga Kínverja uppúr fátækt og þannig myndað fjölmenna millistétt. Þessi millistétt skynjar sig sem augljósa arftaka valdsins, en hefur í raun ótrúlega lítið út á að setja á það kerfi sem bjó það til. Fyrir þeim virkar kerfið ágætlega, og þeir sjá ekki fram á annað en að hlutir verði bara betri og betri. Í raun mætti segja að hér ríkti einhverskonar Pútínskt lýðræði í þeim skilningi að ef kosið yrði á morgun, væri ekki ólíklegt að núverandi forseti Kína fengi rússneska kosningu.

Og þá komum við að Internet kynslóðinni. Þetta er fyrsta kynslóðin sem er komin frá þessari nýju millistétt, og hún er alin upp við neysluhyggju og tilheyrandi glóbalisma. Ekki er óalgengt að ríkari einstaklingar úr henni hafa dvalið erlendis við nám, en koma yfirleitt aftur til að freista gæfunnar á öldum hagvaxtarins. Þessi kynslóð er ótrúlega stolt af hinu nýja Kína, og hefur það sterklega á tilfinninguna að með hjálp þeirra muni þeir endanlega gera landið að því menningarlega stórveldi sem það á skilið að vera. Þeirra hugmyndir eru ekki landfræðilega expansíonísk (eða ég amk ekki orðið var við það), en þau hafa vissulega skoðun á því hvað sé skilgreint sem Kína, enda endurspeglar það þeirra uppeldislega raunveruleika.

Það er því ekki að undra að þeim sé í dag stórkostlega misboðið, með það sem þau skynja sem hatur á Kína víðsvegar um heiminn. Hvort sem það eru stúdentar eða ungt fólk á atvinnumarkaði. Leigubílstjórar eða vefhönnuðir: allt þetta unga fólk er furðu lostið yfir viðbrögðum Vesturlanda gagnvart Kína.

Þeirra skynjun á þessu er svona svipuð og ef Paul Watson hefði komið til Íslands, sökkt öllum íslenska veiðiflotanum, mulið styttuna af Ingólfi niður í duft og tekið hana í nefið og dansað svo á gröf Jónasar.

Viðbrögð þeirra eru eftir því, og nú eru hafnar pópulískar hreyfingar til að boycotta ýmis vestræn fyrirtæki, og almenn óvild gagnvart vesturlöndum að magnast.

Persónulega finnst mér þetta ansi sorglegt, enda held ég að ef fólk á Vesturlöndum vonist virkilega eftir breytingum í Kína, þá gerist það einmitt með meiri samskiptum og skilningi á þeirri kynslóð sem mun koma þar við völd á næstu 10-20 árum frekar en að ala enn meira á fórnarlambshyggju og þjóðarhyggju.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvað sé rétt og rangt og hvernig utanríkisstefna Kína ætti að vera, en menn mega ekki gleyma því að Kína er 1.2 miljarða stórt risaólíuskip og það umvendir ekki á tímaskala einna ólympiuleika. Menn ættu því frekar að fyllast konfúsíus-ísku þolinmæði og horfa til langtíma, því að breytingin er vissulega hafin.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Fróðleg lesning. Má skilja það svo að þú álítir að (meint) mannréttindabrot stjórnvalda í Kína (hvort sem er gangvart Tíbet eða öðrum þjóðarbrotum ), ritskoðun (t.d. Internet Cencorship) og aðrir "totalitarian" tilburðir séu ekki eins miklir og við á Vesturlöndum teljum og að þróunin sé öll í rétta átt í Kína?

Ég hef verið þeirrar skoðunar að Vesturlönd ættu að styðja við bakið á þeim Kínverjum sem vilja aukið frelsi, mannréttindi etc. m.a. með því að þrýsta á stjórnvöld í Kína. Ég myndi ætla að almenningur í Kína kynni að meta slíkan stuðning að því gefnu að ekki sé um að ræða yfirlæti eða aðgerðir a'la Tom Watson sem auðvitað myndi særa stolt hverrar þjóðar og hefur því andstæð áhrif.

17. apríl 2008 kl. 19:35  
Anonymous Nafnlaus said...

Mjög góð greining. Ég þekki vel til í Kína eftir að hafa búið í Asíu og ferðast mörgum sinnum til landsins. Það versta sem hægt er að gera er að "eyðileggja" ólympíuleikana fyrir Kínverjum, þeir munu aldrei fyrirgefa okkur á vestulöndum það. Þá er ég ekki að tala um kínversk stjórnvöld heldur kínverskan almenning. Tugþúsundir kínvera eru að læra í háskólum á vesturlöndum. Þeir eru flestir æfir yfir því sem þeir skynja sem herferð gegn landi sínu. Og ekki er hægt að kenna því um að stúdentarnir fái ekki upplýsingar, þeir lesa og heyra auðvitað allt sem sagt er í fjölmiðlunum þar sem þeir eru að læra. Þvi miður virðist mikið af þessari andkínversku bylgju sem er í gangi einfaldlega vera byggt á ranghugmyndum og einsleitum upplýsingum frá tíbetskum aðskilnaðarsinnum, sem stunda ekkert minni áróður og blekkingar heldur en kínversk stjórnvöld.

17. apríl 2008 kl. 20:46  
Blogger kjartan said...

Ég hugsa að þróun sé í rétta átt einfaldlega vegna kynslóðaskipta, sem taka náttúrulega sinn tíma.

Flestir Kínverjar sem ég þekki eru ekkert að velta sér mikið uppúr stjórnvöldum, og finnst þeir satt að segja lítið heftir af þeim. Þessvegna finnst þeim utanaðkomandi fólk að segja þeim hvað þeim ætti að finnast og gera frekar afskiptasamir og leiðinlegir.

Eflaust á þetta ekki við um alla, en ég hef amk ekki rekist mikið á annað.

17. apríl 2008 kl. 21:36  
Anonymous Nafnlaus said...

Það eru greinilega allir hér með reynslu af landinu, en ég ætla að láta flakka smá grein um Kína frá Geneva.
Expert urges caution over anti-Chinese protests
http://www.swissinfo.org/eng/front/Expert_urges_caution_over_anti_Chinese_protests.html?siteSect=108&sid=8976188&cKey=1208416020000&ty=st

18. apríl 2008 kl. 06:53  

Skrifa ummæli

<< Home