laugardagur, 5. apríl 2008

Um vefmyndasafn

Óttalega finnst mér þetta vera einfeldnisleg þingsályktunartillaga hjá þeim sem vilja eyða yfir 200 miljónum í að setja vefmyndavélar um allt Ísland. Ég get ekki með nokkrum hætti ímyndað mér neinn þann stað á Íslandi sem lítur vel út í gegnum vefmyndavél, sér í lagi ekki eftir einn almennilegan íslenskan vetur. Verða gerðir út leiðangrar til að pússa linsurnar á vorin? Hvað verður svo gert ef enginn nennir að horfa á þetta?

Landslag nýtur sín lítils án hreyfingar og án skynjunar á rúminu. Ljósmyndarar og landslagsmálarar þurfa að hafa sig alla við til að gera þetta viðfangsefni áhugavert í tvívítt. Ég efast um að vefmyndavél búi yfir þeirri næmni.

Miklu nær, og mun ódýrara að ég tel, væri að gefa Google aðgang að hágæða loftmynda og hæðargrunni fyrir Ísland, þannig að hægt sé að skoða Ísland almennilega í Google Earth, sem er að verða að ipso facto staðli til að skoða landfræðilegar upplýsingar á Netinu í þrívídd. Sé sá grunnur ekki til, eða ekki í nógu góðum gæðum, þá væri tilvalið að eyða þessum 200 miljónum í að búa til slíkan grunn og gera hann aðgengilegan, einsog ég hef áður minnst á þessum síðum.

Með Google Earth hef ég rekist á jakuxa í gilskorningi í Nepal og séð grilla í götusala í Bombay slömmi, þvílík getur upplausnin verið þegar gögnin eru til staðar. Það munar sérstaklega um hæðargögnin sem gerir mönnum virkilega kleyft að fá tilfinningu fyrir legu landsins og stærð, þannig að menn getir raunverulega 'ferðast' um gögnin. Það er helst þannig sem unnt væri að miðla upplifelsi íslenskrar náttúru í gegnum Netið.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Myndirnar eru til, en G vill fá þær ókeypis, sem Loftmyndum hugnast illa.

5. apríl 2008 kl. 01:29  
Anonymous Nafnlaus said...

Tek undir þessi orð

5. apríl 2008 kl. 06:46  
Anonymous Nafnlaus said...

Auðvitað, laukrétt. Þetta er miklu vitrænna heldur en gamaldags vefmyndavélar.

5. apríl 2008 kl. 17:41  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er mjög góð hugmynd hjá þér. Þessi hugmynd er eiginlega jafn góð eins og vefmyndavélahugmyndin er vitlaus.

Fjalar

5. apríl 2008 kl. 20:57  

Skrifa ummæli

<< Home