fimmtudagur, 16. október 2008

Íslenskar eignir til sölu í Hong Kong

framtidarhus Einhverjir báðu mig um að halda áfram að koma með smá fjármálafréttir frá Asíu. Það reyndist ekki vera erfitt að tína eitthvað til, þar sem forsíðufrétt viðskiptablaðs South Morning China Post í morgun reyndist tengjast Íslandi (lesendum til glöggvunar, þá er þetta dagblað gefið út á ensku í Hong Kong og þykir vera óháðasta kínverska blaðið sem þar er gefið út). Reyndar var mikil frétt um Ísland fyrir stuttu, en það var um ástandið heima fyrir.

Í þessari frétt í morgun kemur fram að tvö íslensk fyrirtæki séu að losa um stórar eignir í Hong Kong, og jafnvel búið að lækka söluverðið á þeim eitthvað. Annars vegar eru Sjóvá-Almennar að selja íbúðasamstæðu í Macau sem er enn í smíðun og var fyrir 2 árum keypt á $100M, en nú sé verið að reyna að selja hana fyrir svipað verð.

Hinsvegar séu Askar Capital að selja íbúðarhúsnæði í Hong Kong sem talið sé að hafi verið $20M virði á sínum tíma og sé nú einnig falt fyrir sama verð.

Eflaust allt saman skiljanlegar aðgerðir miðað við núverandi ástand. Blaðamaðurinn var þó að velta fyrir sér hvort þetta væri merki um það sem koma skal með aðra stóra erlenda fjárfesta í Hong Kong og Macau, og hvaða áhrif það gæti haft á fasteignaverð þar.

Hér er hlekkur á fréttina, en það þarf að vera áskrifandi til að lesa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home