miðvikudagur, 10. desember 2008

Um pólítíska spillingu


Það er all svakalegt að lesa um símahlerunina hjá þeim sem ætlaði að selja þingsæti Obama hæstbjóðanda. Á sama tíma hef ég alltaf haft það á tilfinninguni að pólítík snúist mestmegnis um svona hagsmunapot, og hef þarafleiðandi reynt að halda mér frá henni einsog hægt er.

Ég komst þó aðeins í návígi við þennan heim fyrir nokkrum árum þegar ég fór sem fulltrúi í íslenskri viðskiptanefnd til Tókýo. Með í för var þáverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, sem var hinsvegar nýbúinn að tilkynna að hann væri á leið út úr pólítík. Ég sá reyndar ekki til Davíðs í þessari ferð, þar sem hann hefur væntanlega verið í stanslausum opinberum erindagjörðum, en hinsvegar var fróðlegt að fylgjast með ferðafélögum mínum þegar slakað var á við hótelbarinn á kvöldin.

Þarna var ég einsog illa gerð barfluga á vegg, enda er ég vita vonlaus í að vita eða muna hver er hvað innan um alla þessa blöndu af stórforstjórum, pólítíkusum og háttsetta opinbera starfsmenn. Ég minnist þess þó vel þegar ég sat við hliðiná tveimum slíkum og gat ekki varist að heyra til samtals þeirra. Þeir voru að ræða það hvað tæki við hjá þeim eftir að Davíð færi út úr pólítík. Annar þeirra ræddi um það hispurslaust og sem algjörlega sjálfgefnum hlut að hann myndi örugglega fá góða ríkisstöðu að launum frá Davíð fyrir dygga þjónustu í gegnum árin, og þuldi upp nokkrar stöður sem honum þótti vera vænlegir kostir. Ekki vottaði fyrir neinum efa um að þetta væri ósiðlegt ef ekki beinlínis ólöglegt.

Seinna komst ég að því að viðkomandi hafði vissulega fengið þennan fína bitling. Hvort það hafi verið tengt þessu samtali efast ég um, hinsvegar er því ekki að leyna að samtal þetta hljómaði voðalega svipað því og hægt er að lesa í ofangreindum símahlerunum í Bandaríkjunum, og fannst mér það heldur dapurlegt.

Hér á landi hefur þetta verið landlægt og ekki talist til spillingar, heldur sjálfsagður hlutur. Vonandi breytist þetta eitthvað.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

íslensk fyrirgreiðsla.

10. desember 2008 kl. 18:07  
Anonymous Nafnlaus said...

Spilling löggjafans er versta tegund spillingar:

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4450830

Rómverji

10. desember 2008 kl. 18:49  

Skrifa ummæli

<< Home