miðvikudagur, 8. apríl 2009

Baader-Meinhof: terrorist chic?

Ég man vel eftir því þegar ég var 10-11 ára að þá var alltaf verið að tala um þessi Baader-Meinhof samtök sem voru að gera allt vitlaust í Þýskalandi.

Mér fannst lógóið þeirra dálítið töff.

Ég verð að viðurkenna að á þessum árum vorum ég og besti vinur minn miklir laumubyltingarsinnar, og söknuðum þess mikið að hafa ekki verið fæddir svona 15 árum fyrr svo að við hefðum getað búið til götuvígi í París einsog pabbi og mamma (ég var reyndar 2ja ára í París á þessum tíma, þannig að ég get sosum alveg haldið því fram að ég hafi verið á svæðinu). Við reyndum m.a.s. að fá inngöngu í Fylkinguna en þeir virtust ekki hafa áhuga á byltingarframlagi 11 ára stráka.

Það næsta sem við komust að þjóna málstaðnum var að vera barnapíur eitt kvöld fyrir Ara Trausta, þáverandi formann Einingarsamtaka Kommúnista Marx Lenínista..hmm...eða var það klofnings Albaníu armur KHML eða KSML? hmm. alveg dottið úr mér. Man bara að var stór mynd af Hoxa í stofunni hjá honum.

Þetta eltist blessunarlega fljótt af manni þegar maður uppgötvaði að jafnöldrur okkar af hinu kyninu voru orðnar hrifnari af allt öðru en pólítík.

Það var hinsvegar skemmtilegt að sjá þetta tímabil og þessa atburði rakta í nýlegri þýskri mynd sem ég sá um daginn, sem heitir 'Der Baader-Meinhof Complex'.

Það sem er forvitnilegt er að myndin hefur fengið gagnrýni í heimalandi sínu, þar sem hún þykir ala of mikið á því sem er kallað 'terrorist chic'. Það er sosum engin nýlunda, þar sem Che hefur síðustu árin verið miklu meiri tískumógúll en byltingarforingi. Ég hafði þó ekki heyrt af Prada Meinhof áður, en það var víst tískulína frá Prada sem kom út árið 2001, en fékk snöggan endi eftir 11.sept sama ár.

Það er helst Róska frænka sem náði þessum status hér á landi. Ég man eftir henni í einhverjum fjölskyldumótum, og mér fannst hún svaka töff. Vissi ekki fyrr en seinna að líklega hefur hún komist ansi nálægt þessum neðanjarðarheimi. Það hefði ekki minnkað aðdáun mína á þeim tíma.

Ég held samt að þetta virki bara ef vonda fólkið er fallegt. Fólk virðist eiga auðveldara að sýna fallegu fólki samúð. Væntanlega snýst þetta allt saman um að geta einkennt sig við einhvern. Ef Che hefði verið feitur og ljótur, þá dreg ég það í efa að hann hefði endað á boli, nema þá í gríni.

Einhverjir unglingar sem horfa á þessa mynd í dag muni örugglega alveg getað sett sig í spor Andreas Baaders og Gudruns Essling. Kynlíf, byssur og hraðskreiðir bílar. Þarf maður eitthvað meira?

Það fer hinsvegar minna fyrir afleiðingum voðaverka þeirra.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home