laugardagur, 18. júlí 2009

Viðskiptafræðingur ársins 2008

var að mati félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga herra Karl Wernersson.

Þetta er fyllilega skiljanleg niðurstaða. Manninum tókst að láta Sjóvá tapa yfir 30 miljarða það ár, en fá samt rúmlega helminginn af því í arðgreiðslur. Á mælikvarða viðskiptafræðinga hlýtur þetta að teljast ippon.

Það fyndna er að talsmenn Sjóvá hamast á því í fjölmiðlum að segja hvað rekstur tryggingarfélagsins hafi verið góður. Ef tryggingarfélag hefur efni á því að tapa 30 miljörðum og á sama tíma greiða út helminginn í arð, þá hljóta iðgjöldin hjá því að vera of há. Kannski spurning að fólk snúi sér að öðrum félögum?

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Borgarahreyfingin fölpúðruð

Sonur minn 7 ára lenti í deilum við bandarískan kennara sinn um daginn. Sá hinn síðarnefndi stóð fastur á því að Ísland væri ekki partur af Evrópu, en sonurinn var hinsvegar alveg viss í sinni sök og gaf sig ekki.

Sjálfur man ég þegar ég flutti á svipuðum aldri til Íslands frá Frakklandi og skildi aldrei almennilega afhverju Ísland væri í Eurovison en samt ekki í Evrópu. Það var einsog einhver hefði gleymt að haka við eitthvað á einhverju eyðublaði.

Vonandi stendur þetta til bóta núna en var ansi naumt á tímabili.

Móðir mín útskýrði eitt sinn fyrir mér út á hvað existentialismi gengi út á, og sagði mér frá því að á sokkabandsárunum sínum í París þá hafi það verið í tísku hjá þeim að púðra sig hvítan. Fölleikinn átti að endursplega þá tilvistarkreppu sem sannur existentialisti væri alltaf í, því að sá ætti kvölina sem á völina. Það væri ekki hvað væri verið að taka ákvörðun um sem skipti mestu máli, heldur ákvörðunin sjálf.

Mér finnst sumir þingmenn Borgarahreyfingunar í dag standa eftir sem svona dálítið sjálfhverfir og fölpúðraðir existentialistar í tilvistarkreppu. Vonandi losna þeir við valkvíðann fljótt.

sunnudagur, 12. júlí 2009

Icesave og ESB: pólítísk skiptimynt

Bankaáhlaup er Akkilesarhæll nútima fjármálastarfsemi. Það er einfaldlega útaf því að útlán banka eru alltaf hærri en innlán, og ef allir ákveða að taka út sína peninga á sama tíma, þá er voðinn vís.

Það er þess vegna að það er ávallt farið með vandamál banka einsog mannsmorð.

Afstaða breskra og hollenskra yfirvalda gagnvart íslenska ríkinu og Icesave verður að skiljast í því samhengi.

Innistæðutryggingar er fyrirbrigði sem innleitt var í Bandaríkjunum eftir kreppuna miklu í 1929, þar sem fjöldi banka fóru á hausinn útaf bankaáhlaupum. Síðan þá hafa menn almennt talið að slíkar tryggingar hafi komið í veg fyrir slík áhlaup.

Fall Lehman Brothers og Northern Rocks gerðu mönnum ljóst að þessi viska væri ekki endilega algild, og að glæfraleg útbreiðsla nýrra og flókinna fjármálagjörninga gerði það að verkum að ábyrgðir banka voru langtum hærri en venjulegar innistæðutryggingar gerðu ráð fyrir (ég tala ekki um það þegar slíkar tryggingar voru höndlaðar með hálfum huga, einsog hér á landi).

Fall íslensku bankanna í kjölfarið kom á þeim tíma þar sem hvurslags efasemdir um innistæðutryggingar hefði afhjúpað grundvallarveikleika á evrópsku bankakerfi, sér í lagi með hliðsjón af því að stór hluti útlána evrópskra banka voru í frekar vafasömum fjárfestingum til austurs, og líklegt að erfitt væri að koma þeim í verð ef allir innistæðueigendur tæku uppá því að taka út sína peninga í massavís.

það er í þessu samhengi sem verður að skilja þá óvenjulegu samstöðu allra ESB ríkja gagnvart Íslendingum: Það mátti einfaldlega aldrei ala upp þann efa hjá almenningi að það væri ekki innistæða fyrir innlánum evrópskra banka.

Staðreyndin er náttúrulega allt önnur.

Ef allir innistæðueigendur ESB myndu taka út sína peninga á sama tíma, þá færi ESB á hliðina, og líklega allur heimurinn í kjölfarið. Innistæðutryggingar myndu ekki nægja nema fyrir lítinn hluta af þessu öllu saman.

Þegar út í það er hugsað, þá er ljóst að Icesave samningurinn er í raun stórkostleg PR skiptimynt fyrir ESB aðild, en það er bara ef samið er um aðild á undan. Ég er pínuhræddur að ef Icesave samningur er samþykktur á undan ESB umsókn, þá séu íslendingar í raun búnir að missa nokkur spil í hendi.

ESB virðist hafa snúið þessu á hvolf, en mig grunar að vegna þess hvað bankaáhlaup og umræða um þau eru viðkvæm mál, þá myndu þeir alls ekki kæra sig um mikla umræðu um hversu núverandi innistæðutryggingarkerfi var í raun nálægt algjöru hruni fyrir tæpu ári síðan. Það er tromp sem mér finnst að íslensk stjórnvöld hefðu átt að nýta sér betur.

Kannski þau hafi gert það og segi ekki frá því. Maður veit sosum ekki, en mér sýnist ekki. Í staðinn samþykkjum við 'feel good' samning við breta og hollendinga, svo að allir innistæðueigendur þar finni ekki fyrir því kerfislæga hruni sem varð á Íslandi, en hefði svo hæglega getað smitast út yfir alla álfuna. Í kjölfarið kemur Ísland veikt og bugað til aðildarviðræðna sem ljóti andarunginn sem skildi ekkert í því hvernig bankakerfi virkaði.

En líklega er of seint að snúa þessu við.

laugardagur, 4. júlí 2009

Um Sifjaspell á litlum eyjum

Fyrir rúmlega 200 árum var breskt kaupskip á heimssiglingu á milli eyja í Suður-Kyrrahafinu að fylla farm sinn af brauðaldintrjám. Eftir að hafa legið við festar í Tahiti í tæpt hálft ár voru lestar skipsins fullar og ákveðið að halda heim á leið.

Farmenn skipsins voru hinsvegar ekki á eitt sáttir með þann ráðahag. Tahitibúar höfðu tekið þeim opnum örmum, og voru þeir vel flestir búnir að festa sitt ráð með heimasætum, og jafnvel búnir að láta flúra sig bak og fyrir að hætti innfæddra. Þótti þeim tilhugsunin um langa og stranga ferð aftur í napra vist á Bretlandseyjum lítt heillandi. Fór loks svo að þeir risu upp gegn skipstjóra skipsins, sem þeir sendu burt á opnum árabáti ásamt öðrum lagsmönnum, en sigldu svo sjálfir til baka til Tahiti með allt góssið.

Þessi atburður var síðar þekktur sem ‚Uppreisnin á Bounty‘, en svo hét skipið sem þeir tóku traustataki.

Það sem færri vita er að eftir að uppreisnarmenn komu aftur til Tahiti, þótti þeim óvarlegt að ílengjast þar, enda uppreisnir á skipum ekki teknar neinum vettlingatökum af breskum yfirvöldum. Fóru þeir því á flakk á Bounty með konum sínum, margar hverjar ekki sjálfviljugar, og enduðu loks á eyðieyju sem var vitlaust staðsett í kortum en hafði ágætis landkosti og þótti því fyrirtaks griðastaður.

Eyja þessi hét Pitcairn. Eftir að hafa sett upp bú þar, tóku þeir á það ráð að brenna skipið svo að engin sönnunargögn yrðu eftir, en dæmdu sjálfa sig á sama tíma í eilífa útlegð, enda engir aðrir ferðakostir í boði.

Það var ekki fyrr en 20 árum seinna sem skip kom aftur að Pitcairn eyju. Þá reyndust aðeins vera einn uppreisnarmaður enn á lífi, ásamt 9 konum og nokkrum börnum. Honum var gefin sakaruppgjöf, og héldu þau áfram að lifa á Pitcairn eyju sem var nokkru síðar sett undir bresku krúnuna.

Enn búa um 50 manns á Pitcairn eyju, allir afkomendur uppreisnarmannanna á Bounty, og komust ekki í fréttirnar aftur nema fyrir um 5 árum síðan, en þá fyrir allt annað.

Lengi vel hafði verið orðrómur um að sifjaspell væri landlægt á Pitcairn, enda erfitt að ímynda sér jafn inngróið samfélag. Alvarlegra þó var að þetta sifjaspell náði einnig til yngri barna, og fór svo að breskir dómstólar saksóttu um 12 karlmenn fyrir slíka kynlífsglæpi árið 2004, en sjálfsagt má ætla að það hafi verið drjúgur hluti vinnufærra manna á eyjunni. Helmingurinn af þeim var dæmdur í fangelsisvist, sem þeir fengu þó að afplána á sínu heimili. Flestir íbúar, þar með talið margar konur, höfðu lítinn skilning á þessum lagagjörningi, enda þekktu þau ekkert annað.

Nærri má láta að á Íslandi ríki samskonar hugsunarháttur hvað varðar samkrull viðskipta og stjórnmála. Kunningjasamfélagið hérna er svo sterkt að það er eflaust erfitt að feta sig áfram á öðrum hvorum af þessum brautum án þess að stíga á hitt. Líkt og með Pitcairn, þá eru það í dag aðallega útlenskir aðilar sem varpa ljósi á sifjaspellið og draga fram í dagsbirtuna óeðlið á bak við ráðahagi margra þessara útrásarvíkinga og pólítíkusa sem höfðu alist upp í einangrun á þessu litla skeri í Norður Atlanshafi.

Eftir að hafa tekið þjóðarskútuna traustataki eru þeir þó flestir komnir aftur og búnir að brenna skútuna, svo að tryggt sé að engir geti komið með kröfur á þá.
Kannski munu einhverjir verða dæmdir fyrir eitthvað misjafnt, en þeir munu væntanlega enda með að afplána þá dóma í heimavist. Jafnvel fá að stýra eitthvað af þessum fjölmörgu ríkisfyrirtækjum sem nú eru látin reka á reiðanum.

Og engum mun finnast það skrýtið.

Þetta hefur alltaf verið svona.