mánudagur, 26. nóvember 2007

Sub-prime krísan útskýrð

Það getur verið ótrúlega erfitt að átta sig á orsökum núverand kreppu á fjármálamörkuðum vegna ótryggra húsnæðislána (sub-prime crisis). Ég hef lesið ýmsar lærðar greinar um þetta, og flestar þeirra týnast í frumskógi á tæknilegum fjármálalegum hugtökum.

Það er því hressandi þegar mönnum tekst að útskýra þetta fullkomnlega og einfaldlega, og þá sakar það ekki þegar það er gert af eðal breskum grínistum. Ég fékk sendan þennan hlekk nýlega úr þættinum 'The Southbank Show'. Óborganlegt.

laugardagur, 24. nóvember 2007

Kissinger og Ísland

Í hugum margra er Kissinger hinn fullkomni Machiavelli síðari hluta 20tu aldar. Hann var alltaf nefndur sem maðurinn á bak við tjöldin í forsetatíð Nixons, og seinna Gerald Fords. Almennt viðurkenndu menn að þar færi fluggáfaður maður, en á sama tíma áttu margir erfitt með að sættast við hans frekar köldu og pragmatísku sýn á heimsmálin, enda stóð hann mitt í hringiðunni á Vietnam stríðinu og seinna hinum sögulegum sáttum Bandaríkjanna við Kína.

Fyrir nokkru rak á fjörur mínar bókina sem hann samdi fyrir meira en áratug síðan og nefnd er 'Diplomacy'. Þetta er dágóður doðrantur og á köflum nokkuð torlesinn, en vinnur á. Hann fer þar yfir geóstrategíska sögu heimsins, allt frá 17.öld til okkar tíma, augljóslega með áherslu á sögu hins vestræna heims. Meirihluti bókarinnar fjallar í raun um samtímasögu hans, en fyrri hlutinn er samt ansi merkilegur.

Fyrst þegar ég byrjaði að lesa þessa bók, fór ég að hugsa um að eflaust væri gaman að sjá hversu illa hann hefði spáð um framvindu næstu ára, miðað við að bókin var gefin út 1994.

Það sem sló mig hinsvegar, og í raun gerði þessa bók að verðugu lesefni, var sú uppljómun hversu mikils virði það var að lesa hvernig _hann_ hugsaði. Ég er nefnilega nokkuð ágjarn að lesa allskyns sagnfræðibækur. Þær eru flestar skrifaðar af vel metnum sagnfræðingum, og takmark þeirra er að greina og skýra liðna sögu þannig að hún virðist hafa nokkuð vel skilgreinda framvindu.

Að lesa bók eftir stjórnmálamann sem hefur verið innvinklaður í mikilvægum pólítískum ákvörðunum segir manni meira um hvernig _hann_ skilur söguna. Það að vita hver er hugarheimur þeirra sem taka ákvarðanir segir mér einhvernveginn meira en aktúal sagan, því að það gefur ákveðna vísbendingu um hvernig arfleifð hans hugsar, og þarafleiðandi gefur mér öðruvísi lestur á samtíma fréttir en ella.

Líklega á þetta þó aðallega við samtímasögu, þar sem samtímaheimildir eru aðgengilegri. Fyrir eldri sögu verða dauðlegir menn eins og ég væntanlega áfram að reiða sig á samviskusama vinnu sagnfræðinga.

Eitt af því sem lestur þessarar bókar vekur upp hjá mér er samt hver hin geóstrategíska stefna Íslands sé? Ef við hlaupum framhjá árunum fyrir lýðveldi, þar sem meginstefnan var sjálfstæði, þá virðist stefnan síðan þá hafa verið æði hentistefnuleg. Það er helst að þátttaka í NATO og yfirráð yfir fiskimið hafi verið einhver vísir að stefnu, og kannski er það það mesta sem lítið land einsog Ísland getur vonast eftir.

Það er voða rómantískt að hugsa sér að lítil og friðsæl þjóð á útjaðri heimsins geti einvhernveginn komið með móralskt innlegg inn í öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, en ég held samt að í realpólítísku ljósi stórþjóðanna þá séum við meira einsog og litla bóhema kaffihúsið mitt á milli KFC og McDonalds: Það er ágætt að setjast þar og drekka einn expressó af og til en þú endar samt með að fá þér hammara á hinum staðnum.

PS: Í bók Kissingers, er Ísland bara nefnt tvisvar sinnum, en reyndar í samhengi þess að hertaka Íslands af Bandaríkjamönnum var í raun fyrsta beina hernaðaraðgerð þeirra í seinni heimstyrjöldinni gagnvart Evrópu, og þannig hálfgerð stríðsyfirlýsing gagnvart Þjóðverjum. Við ættum þó samt að varast allan rembing því að þar var að ræða um danska nýlendu, einsog skýrt kemur fram í bókinni...

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Lúftgítarinn loks taminn

Á mínum unglingsárum átti ég við vissa tilvistarkreppu að stríða. Í plötusafni eldri systkyna lágu það sem Frakkar myndu kalla les monstres sacrés rokksögunnar, rafmögnuð ofuregó sem höfðu þrammað í gegnum sjöunda og áttunda áratuginn með miklum látum og fótspor þeirra lágu á víð og dreifð einsog svo mörg tónlistarleg Ásbyrgi. Hljómsveitir einsog Led Zeppelin, Deep Purple, Rolling Stones og goðsagnaverur einsog Jimi Hendrix og Eric Clapton. Tíðarandinn við lok áttunda áratugarins vildi hinsvegar snúa þessu á hvolf og nú var málið að gera frekar en að geta. Það var allt gott og blessað, en hinsvegar láðist að geta þess að lúftgítarleikur var mun átakaminni með þessari nýju tónlist. Það var sosum hægt að hamra sæmilega undir Sex Pistols eða Clash, en tilþrifin voru einhvernveginn ekki alveg jafn hetjuleg. Ég tala nú ekki um það þegar maður hægt og hægt sökk í innhverfari tónlist einsog Brian Eno og Bauhaus eftir því sem maður vandaði sig við að vera sannur existensíalískur unglingur. Að lokum fór svo að mér fannst öll gítarsóló afskaplega púkó, og allt sem innihélt slíkt sett vel aftast í bunkann. Tónlist morgundagsins skildi skrifuð í tölum.

Því fór svo að lúftgítarinn var hengdur upp í rykugum skáp í hugarfylgsninu og gleymdist fljótt, þrátt fyrir að Sykurmolar reyndu að lífga hann upp á tímabili.

Væntanlega hefði hann hangið þar áfram það sem eftir er, hefði mér ekki áhlotnast fyrir stuttu tölvuleik sem spilaður er á leikjatölvum einsog PlayStation 2 og fleirum sem kallast Guitar Hero. Þrátt fyrir að þessi leikur hafi komið út fyrir nokkrum árum, hafði ég aldrei haft tækifæri til að prófa hann fyrr en nú. Fyrir þá sem ekkert vita um þennan leik þá samanstendur hann af litlum plastgítar sem á meira skylt við rafukulele, sem er ekki beint til að auka virðuleika manns við spilamennskuna, en að svo komnu verða menn að hrökkva eða stökkva. Á skjánum er svo hægt að velja hin og þessi rokklög, sem öll eiga það sammerkt að innihalda ofurhetjuleg gítarsóló. Málið er svo að reyna að spila þessi sóló skammlaust og helst með sem mestu tilþrifum og sveifla hárum ef einhver eru. Í einföldu máli sagt, þá er þetta karaoke fyrir lúftgítarleikara.

Ég verð að viðurkenna að það er langt síðan ég hef spilað jafn ávanabindandi tölvuleik, og hef þó spilað þá marga í gegnum árin. Allt í einu vaknaði uppúr værum blundi einhver unglingur sem sótti lúftgítarinn úr skápnum, steig ókeikur á upplýst sviðið með 100,000 vött að baki og 100,000 öskrandi grúppíur fyrir framan sig og gaf í.

Væntanlega er þetta allt dularfullur partur af gráa fiðringnum, en ég mæli engu að síður með því að allir þeir sem hafa lítinn bældan lúftgítarleikara inni í sér prófi þetta að minnsta kosti einu sinni. Krakkarnir mínir hafa líka óstjórnlega gaman af þessu, þannig að brátt verðum við komnir með fullgilda lúfthljómsveit.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Reykjavík, hóra vestursins

Samkvæmt síðustu tölum, er fjöldi Shanghaibúa eitthvað yfir 20 milljónir. Shanghai er því ein af allra stærstu borgum heims. Samsetning íbúa er líka æði skrautleg. Allt frá fátækustu farandsverkamönnum upp í ríkustu einstaklinga Kína. Jafnframt er millistéttin hér ein sú stærsta, og fjöldi útlendinga einnig.

Shanghai á sér líka skrautlega sögu. Hún hefur verið aðalmiðstöð viðskipta við meginland Kína síðan á 19. öld á dögum Ópíumstriðsins, þegar Bretar reyndu að jafna viðskiptahallann sinn við Kína með því að gera þá alla að eiturlyfjafíklum. Hún var lengi vel stjórnuð af öðrum þjóðum, sem skiptu henni á milli sín einsog afmælistertu. Þannig var franski hlutinn byggður upp að hætti Hausmanns, og vann sér þannig inn nafnið "París austursins". Önnur starfsemi og þjónusta við aðkomumenn gaf henni hinsvegar nafnið "Hóra austursins".

Það merkilega við þessa borg er að miðað við hversu mikil skemmtanaborg og suðupottur hún er, þá er þetta með allra öruggstu borgum sem ég hef lifað í. Þegar maður labbar heim eilítið hífaður um miðja nótt eftir einhvern glauminn, þá er yfirleitt eina fulla manneskjan sem verður á vegi manns maður sjálfur, og engum dettur í hug að bögga þig nema kannski einstaka betlari.

Og ekki stafar þetta öryggi útaf því að hér ríki einhver heragi, fjarri því. Einu löggurnar sem maður sér hér dags daglega eru umferðarlöggur, og á nóttinni sér maður þær aðallega sofandi í lögreglubílunum sínum sem þær hafa lagt á einhverjum rólegum stað til að fá frið.

Innfæddur Shanghaibúi sem ég bryddaði uppá þessu við, tjáði mér að Shanghai hefði nokkra sérstöðu með þetta. Hann vildi meina að Shanghai hefði alltaf verið miðstöð viðskipta, og þeir sem standa í kaup og sölum vita að óöryggi er ekki gott fyrir viðskiptin. Þannig hafi myndast einhverskonar menning sem sér um sig sjálf og hefur haldist þrátt fyrir gríðarlega uppbyggingu.

Ég finn það núna þegar ég á leið til Íslands, hvernig menningin þar er allt öðruvísi og mun taugastrekktari. Ég held reyndar að það hafi ekki sérstaklega breyst á milli ára, en eini munurinn er kannski að fólki fjölgar og þegar skemmtanamenningin stefnir öllum á sama stað á sama tíma, þá verður þéttleikinn meiri og stemmingin eftir því.

Ég hef alltaf búið í miðbæ Reykjavíkur, og hef satt að segja verið nokkuð sáttur við þetta ástand, enda hafa svefnbæjir alltaf gert mig syfjaðan (sem er væntanlega tilgangur þeirra). Ég finn það samt núna eftir að hafa verið hér í Shanghai í um 2 ár, að Íslendingar, sérstaklega á djamminu, mættu alveg læra að slaka aðeins á. Allt í lagi að fara út á lífið, en kannski óþarfi að láta alltaf einsog þetta sé þeirra síðasta stund.

laugardagur, 17. nóvember 2007

Blæju Mercedes og Búdda

Ég las skemmtilega frétt í Shanghai Daily um daginn, sem lýsir dálítið hvernig Kína er að breytast. Í miðju Shanghai er búddamusteri sem er kallað Jingan Temple. Einn daginn lenti kona þar í deilum við einn vörðinn við inngang musterisins, því hún vildi fá að keyra blæju Mercedes bílnum sínum alveg uppað musterinu, en vörðurinn sagði henni að bílar væru ekki leyfðir innan svæðisins. Konan æsti sig upp og var svo komið að lokum að lítill múgur hafði myndast í kringum hana. Loks steig konan útúr bílnum og endaði með að bíta í eyrað á eldri konu sem hafði blandað sig í rifrildið. Að svo komnu kom lögregla á vettgang og handók bitvarginn. Samkvæmt lögregluskýrslum mun hún hafa afsakað athæfi sitt með því að henni fyndist að venjulegir Kínverjar skildu ekki þarfir ríka fólksins.

Miðað við öra fjölgun miljarðamæringa í Kína spái ég því að brátt munum við sjá svona Aktu-Taktu musteri með VIP pössum og valet parking.

fimmtudagur, 15. nóvember 2007

Hinn slæmi faðir

Hin dæmigerða bílaauglýsing sýnir áreiðanlegan, efnaðan grásprengdan karlmann sem virðist eyða mesta tímanum sínum keyrandi um í eyðimörkum víðs vegar um heiminn í einhverskonar kosmísku ritúali þess á milli sem hann pikkar upp börnin og konuna og flytur þau af staðfestu á milli staða í loftbelgdri púpu. Þau horfa öll með aðdáun á hann í móki þeirra sem engar áhyggjur þurfa að hafa, en stálblátt augnaráð hans hvikar ekki frá veginum.

Mér var hugsað um þetta þegar ég tók á móti fjölskyldu minni á flugvellinum í Shanghai fyrir nokkru. Eðalvagninn þar var ryðgaður Volkswagen Santana, sem er staðalbúnaður hins kínverska leigubílstjóra, einnig kallaður Black Magic Cab. Í honum er enga loftpúða né öryggisbelti að finna, og öll fjölskyldan gat því óhindruð virt fyrir sér, reyndar í gegnum reykbólstra sígarettu bílstjórans, hinn æsilega Formúlu 1 kappakstur sem ferðalagið frá Pudong flugvelli niður í miðbæ Shanghai er.

Það merkilega við þetta er að þetta venst.

Komandi frá Íslandi þar sem menn eru handteknir fyrir utan leikskóla með illa uppsett barnasæti, var ekki laust við það að þarna fengi maður einkennilega kitlandi blöndu af ánægju og sektarkennd, þrátt fyrir að auglýsingarnar hefðu verið duglegar að innprenta í mann að þeir sem voguðu sér að setja börnin sín í bíl með færri en 8 loftpúða væru líklega glæpamenn eða í það minnsta stórkostlega vanhæfir foreldrar.

Að sjálfsögðu verðmetum við öryggi fjölskyldu ofar öllu, hinsvegar hefur runnið upp fyrir mér hér að markaðsvæðing öryggisins er kannski að nýta sér þennan veikleika fólks full mikið. Að nota sektartilfinningu til að selja öryggi, og þar að auki öryggi sem er oft frekar incremental í stóru samhengi hlutanna er svona móralskt séð alveg á jaðrinum.

Hér í Kína finnst mér ég vera að endurupplifa hina áhyggjulausu æsku þar sem einu öryggisnetin voru þau sem maður notaði sem innkaupapoka þegar maður var sendur hjálmlaus á hjóli að kaupa pott af mjólk í næstu mjólkurbúð.

Eflaust má einnig meta það áhyggjuleysi að verðleikum.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Tannsmiðir og gyðingar

Rakst nýlega á frétt þar sem sagði að Yad Vashem stofnunin í Ísrael hefði opnað gagnagrunn yfir fórnarlömb útrýminga nasista. Fór að gramsa þarna af forvitni, og leitaði m.a. af langömmu og fleiri af Künstlich ættinni. Fann þó nokkra með því nafni, en erfitt að segja hversu algengt nafn þetta hefur verið.

Mamma hélt lengi vel að Künstlich þýddi listrænn. Hún var frekar hissa þegar hún sá þetta prentað utan á kassa af mandarínum fyrir mörgum árum. Orðið þýðir í raun 'artificial'. Afi kom með þá útskýringu að þegar gyðingar í Rúmeníu reyndu að samlagast samfélaginu á 19. öld, hefðu þeir margir tekið upp þýsk ættarnöfn. Oft notuðu menn einfaldlega nafnið á þeirri iðn sem þeir stunduðu, einsog t.d. Schumacher. Künstlich kom vegna þess að langafi og þar áður faðir hans bjuggu til gerfitennur og gerfilimi. Líklega er það þessvegna sem læknamenntun hefur síðan verið viðloðandi ættinni.