þriðjudagur, 17. febrúar 2009

Hjákonum sagt upp

Hin alþjóðlega fjármálakreppa tekur á sig ýmsar myndir hér í Kína.
Í fréttum í dag var sagt frá Fan nokkrum, viðskiptamógúl í hafnarborginni Qingdao í austanverðu Kína. Maðurinn var stórtækur í viðskiptum en greinilega líka í einkalífinu, því að hann hafði komið sér upp hvorki færri né fleiri en fimm hjákonum auk eiginkonunnar. Hver hjákona kostaði hann um 5,000 RMB (um 80,000 ISK) í uppihaldi á mánuði auk leigu á íbúð fyrir hverja þeirra.

En eftir að skórinn tók að kreppa í lok árs 2008, sá hann fram á þörf á niðurskurði, og komst að þeirri niðurstöðu um að það þyrfti að 'downsizea' niður í eina hjákonu í bili. Nú var úr vöndu að ráða. Hverja ætti hann að velja? Eftir frekari umhugsun datt hann niður á það snjallræði að halda svona keppni á milli þeirra. Svona einskonar heimatilbúna Who Wants to Marry a Millionaire keppni.  Hann fékk lánaðan lítinn næturklúbb hjá vini sínum og lét hjákonurnar (sem þekktust) keppa þar innbyrðis í dansi, söng og drykkjuleikjum, þar til aðeins ein var eftir uppistandandi. Eftir það sagði hann hinum fjórum umsvifalaust upp ásamt íbúðum og fríðindum.

Ein kvennanna sem laut í lægra haldi var fjarri því ánægð með þennan ráðahag og hugði á hefndir. Einn daginn bauð hún Fan ásamt hinum hjákonunum í bílferð, svona sem einskonar sáttarför að skoða fjöllinn í kring. Í staðinn tók hún sig til og keyrði sem leið lá útaf fjallshlíð með alla hersinguna.

Kaldhæðnislega var sú eina sem lést í þeirri byltu hún sjálf, en hún hafði þó skilið eftir bréf sem skýrði frá öllum málatilbúnaði.

Eiginkona karlsins skildi við hann.

Hjákonurnar hurfu á brott og hann þurfti að borga fjölskyldu þeirrar sem dó bætur.

Það hlýtur að vera einhver metafýsísk mórölsk lexía falin í allri þessari sögu, en ég er satt að segja algjörlega búinn að missa sjónar af henni :)

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

20 miljónir missa vinnuna


Kínversk stjórnvöld tilkynntu nýlega að um 20 miljónir farandsverkamanna hefðu ekki fengið vinnu aftur eftir kínverska nýárið. Það hefur verið heilmikill fjöldi verkamanna sem hafa flutt úr sveitunum síðustu árin til að vinna við hina miklu uppbyggingu sem á sér stað í stórborgum Kína. Á kínverska nýárinu fara þeir flestir heim í sveitirnar til að fagna nýja árinu með fjölskyldunni. Á þessu ári áttu 20 miljónir ekki afturkvæmt þaðan, enda iðnaðarframleiðsla að dragast saman samhliða samdrætti í neyslu um allan heim.

Þetta er dálítið mikið af fólki.