þriðjudagur, 18. desember 2007

Ísland Uber Alles

Það er sérkennilegt að horfa á Ísland úr fjarlægð verða að fjölþjóðasamfélagi.

Margir virðast vera hissa á þessari þróun og vita ekki almennilega hvernig þeir eiga að díla við það. Allt í einu fara menn að grúska í einhven síð-19-aldar rómantísma um Ísland og halda að hið íslensksa þjóðareðli snúist um að vera í ullarsokkum og drekka heita mjólk fyrir svefninn, og svo lengi sem menn haldi í það, þá verðum við þetta sterka aríska þjóðfélag sem þrátt fyrir allan aumingjaskap síðustu alda geti sýnt heiminum langa fingur og með einhverjum undursamlegum hætti verið klárari en allir aðrir.

Þettta er svo fjarri lagi.

Í einhverjum skilningi lifum við í einskonar helíosentrísku þjóðfélagi. Alveg einsog bandaríkjamenn og sóvétmenn á sínum tíma höfðu áhrif á það hvernig heimskort voru vörpuð í mismunandi hnitakerfi. Hjá bandaríkjunum þá völdu þau hnitakerfi þar sem Rússsland leit út fyrir að vera minna en það í raun var, en hjá Rússunum völdu menn hnitakerfi þar sem Bandaríkin komu fram sem ógnvekjandi totur sem seildust til Rússlands bæði frá austri og vestri.

Hið íslenska helíosentríska þjóðfélag brýst fram í íslenskum VISA kortum, þar sem Ísland er fyrir miðju og sólargeislarnir standa út frá miðju þess, eins og á japanska fánanum.

Í dag hafa menn áhyggjur af því að hið íslenska þjóðareðli sé í hættu vegna þess að pólskir píparar séu að róta í hinn séríslenska saur eða að lítháiskir glæpónar séu að selja miðaldra kynþyrstum körlum kynlíf.

Einfalda svarið við því er að ef okkar þjóðfélag á raunverulega undir högg að sækja vegna ásóknar pípara og hórumangara, þá er kannski ekkert varið í þetta blessaða þjóðfélag. Alvöru þjóðfélag hefur traustari undirstöður en þær en að einhverjir klósettkafarar geti grafið undan því. Ég held að íslenskt þjóðfélag sé sterkari en það. Menn eigi ekki að hafa áhyggjur af þessum hlutum.

Það sem menn eiga að hafa áhyggjur af er hvort börn okkar fái alvöru menntun og hvort að þeir sem gefi þessa mennntun hafi raunverulega burði til þess. Allt annað er hjómur einn. Gefið börnum okkar grikkja einsog Aristoteles til að kenna okkur líffræði. Gefið börnum okkar Gyðing einsog Albert Einstein til að kenna okkur eðlisfræði. Gefið okkur kínverskan Confucius til að kenna okkur siðfræði. Og gefið þeim fullt af pening. Helst meira en einvherjum Group forstjórum.

Ef okkur tekst að ala upp vel upplýsta einstaklinga, sem hafa einlægan áhuga á umhverfi sínu og virkilegan vilja til að bæta það, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af öðru. Allar þessar áhyggjur af erlendum áhrifum og glötun íslenskra verðmæta stafar bæði af skorti af viðsýni og vilja til aðskilja samhengi Íslands við veröldina.

Á sama tíma er mönnum frjálst að hafa skap og gáfur til að nýta sér það til bóta og frumlegheita að eiga sér sérstækt tungumál og uppeldi, en ef svo er þá eiga menn að reyna að sáldra því um heimsins byggð, því að aldrei verður þar skortur á þrá fyrir hugmyndum og innblæstri.

þriðjudagur, 11. desember 2007

Pútín og Mongólanir

Photo Sharing and Video Hosting at PhotobucketÉg var að enda við að horfa á myndina Mongol eftir rússneska leikstjórann Sergei Bodrov. Hún er afskaplega áhrifamikil og ljóðræn mynd um uppgang Gengis Khans á 12. öld, sem endaði með að leggja undir sig hálfan heiminn og olli beint og óbeint miklum breytingum í sögu mannkyns.

Mynd þessi leiddi hugann aftur að bók Kisingers, 'Diplomacy' sem ég hef áður skrifað um hér. Í kaflanum sem fjallar um orsök Kalda Stríðsins, nefnir hann einn atburð sem olli straumhvörfum í samskiptum Rússa og Bandaríkjana. Það er Símskeytið Langa (e. The Long Telegram) skrifað af George F. Kennan sem var þá starfsmaður í bandaríska sendiráðinu í Moskvu. Í 8,000 orðum þótti hann hafa fangað eðli rússneskrar utanríkisstefnu. Samkvæmt mati hans hefði hún mótast fyrir mörgum öldum síðan, og hefði lítið breyst síðan: Það væri sama hvort litið væri til Tsaranna eða sóvesku harðstjórana. Hér er tilvitnun í þetta fræga skeyti:

At bottom of Kremlin's neurotic view of world affairs is traditional and instinctive Russian sense of insecurity. Originally, this was insecurity of a peaceful agricultural people trying to live on vast exposed plain in neighborhood of fierce nomadic peoples. To this was added, as Russia came into contact with economically advanced West, fear of more competent, more powerful, more highly organized societies in that area. But this latter type of insecurity was one which afflicted rather Russian rulers than Russian people; for Russian rulers have invariably sensed that their rule was relatively archaic in form fragile and artificial in its psychological foundation, unable to stand comparison or contact with political systems of Western countries. For this reason they have always feared foreign penetration, feared direct contact between Western world and their own, feared what would happen if Russians learned truth about world without or if foreigners learned truth about world within. And they have learned to seek security only in patient but deadly struggle for total destruction of rival power, never in compacts and compromises with it.

Maður fær því ákveðið 'déja vu' þegar maður heyrir Pútín fara með ræður þar sem hann virðist einmitt höggva í sama knérunn og reynir að ala upp á óöryggi Rússa gagnvart öllum nágrönnum nær sem fjær. Það skyldi þó ekki vera að eitthvað sannleiksbrot í skeytinu langa og að eina lækning Rússa við sitt eðlislæga óöryggi væri að kjósa (eða fá) yfir sig alskyns harðstjóra.

mánudagur, 10. desember 2007

Meira um trúboð í skólum

Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn hálf hissa á því hversu vel upplýstum og víðsýnum mönnum einsog Agli Helgasyni (*) virðist vera fyrirmunað að skilja sjónarmið þeirra sem vilja færa trúboð úr skólum og yfir til þar til gerðra trúarstofnana.

Persónulega hef ég haft reynslu af þremur mismunandi skólakerfum í gegnum árin: hið franska, bandaríska og svo íslenska.

Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar ég fór í minn fyrsta tíma í 8 ára bekk í Hlíðaskóla þegar ég var 7 ára, og var þá tiltölulega nýfluttur frá Frakklandi. Ég man að skóladagurinn átti að byrja með morgunbæn. Þó ég hafi verið frekar ungur að árum, þá var ég aldeilis ekki á því að taka þátt í helgihaldinu. Líklega var það útaf uppeldi heima fyrir, en á þeim árum var ég frekar mikill aktívisti í þessum efnum þó ég hafi mildast mikið með árunum. Ég og kennarinn ræddum þetta aðeins því henni var illa við að ég tæki ekki þátt, og ég sagði henni sem væri að ég teldi mig ekki trúaðan og gæti því ekki með góðri sannfæringu farið með Faðir Vorið. Við sammældumst um að ég myndi í það minnsta loka augunum á meðan á bæninni stæði og ekki verra ef ég myndi hreyfa varirnar, svo að þetta liti vel og friðsamlega út allt saman. Augunum lokaði ég, en vörunum hélt ég herptum :)

Í frímínútunum eftir þessa uppákomu uppskar ég ómælda athygli frá öðrum bekkjarfélögum. Vissulega hefðu þetta geta verið frekar pínlegar aðstæður fyrir fyrsta tímann minn í bekknum, en krakkarnir voru frekar hissa á þessu og í raun fullir aðdáunar að ég skyldi hafa staðið upp í hárinu á kennaranum.

Í dag finnst mér þetta frekar broslegt allt saman, en þetta sýnir þó að jafnvel á unga aldri þá geta menn verið með sannfæringu og staðið við hana.

Nokkrum árum seinna lét ég mig hafa það að fara í eitt skipti í sunnudagsskóla á Laufásveginum því að ég hafði heyrt af því að þar væri hægt að fá ókeypis nammi og horfa á teiknimyndir. Svona er maður mikill tækifærissinni.

Í Frakklandi ríkir sterkur aðskilnaður ríkis og kirkju, og eru hverkyns trúartákn eða trúarstarfsemi bönnuð í skólum. Þetta er arfleifð frá frönsku byltingunni og Napóleon, og þótti mikið húmanískt skref á sínum tíma. Ennþá daginn í dag er þessari hefð fylgt eftir, einsog þegar íslömskum stúlkum var bannað að hylja andlit sitt í frönskum skólum fyrir nokkrum árum. Kannski er það of strangt? Ég veit það ekki.

Í Bandaríkjunum (og öðrum alþjóðlegum skólum sem margir hverjir fylgja sömu stefnu), þá ríkir sama hefð, jafnvel þótt að Bandaríkjamenn séu líklega með trúræknustu þjóðum. Örsökin þar liggur væntanlega í því hversu margvíslegar trúarskoðanir eru til, og því ekki hægt að reka neina ríkistrú. Þar fullnægja menn þessa uppeldisþörf í kirkjum og sunnudagsskólum, og allir lukkulegir með það.

Krakkarnir mínir fara hér í alþjóðlegan skóla. Þar eru krakkar sem koma frá Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Hong Kong, Singapore, etc. Ég get ekki ímyndað mér hvar þau ættu að byrja í trúboðinu, enda er ekkert um slíkt. Samt eru þetta allt saman alsælir krakkar og afskaplega ljúf. Þeim er kennt að vera góð við hvort annað og bera virðingu fyrir allt og alla, konur með hár og kalla með skalla. Ef einhverjir krakkar hafa einhvern sérstakan hátíðisdag frá sínu landi þá eru þeir hvattir til að halda erindi um það fyrir hinum krökkunum, segja þeim frá sínum hefðum og finnst öllum það stórmerkilegt og áhugavert. Þannig hefur hróður íslenskra jólasveina borist til Shanghai og á örugglega eftir að berast þaðan inn á hin margvíslegu heimili.

Þetta er ekkert voða flókið og engum virðist verða meint af. Ég efast um að þjóðfélagið fari á hlið við þetta og úr skólunum komi skyndilega hjarðir af froðufellandi siðlausum barbörum sem brenni kirkjur og stundi mannfórnir.

Það vill nefnilega gleymast að jafnvel krakkar geti haft sannfæringu, þótt að sumum virðist þykja best að svo væri ekki og engin sérstök ástæða sé til að virða það.

(*) Sé það núna að líklega hef ég haft hann Egil fyrir rangri sök.

mánudagur, 3. desember 2007

Eilífðar smáblómið netvætt

Þegar sumir réttlæta fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, þá vilja þeir meina að slíkar fjárfestingar skili sér alltaf í tímans rás þar sem þær auka þjóðfélagslega hagkvæmni.

Nútímavegir liggja hinsvegar meira og meira í hinum rafræna heimi. Þar á mestur hluti þjóðfélagsumræðu sér stað í dag. Þar ákveða menn hvaða mynd þeir ætla að sjá, hvaða tónlist er áheyrileg og hvaða bók er vert lesa. Þar sækja menn í daglegar fréttir, skiptast á kjaftasögum og þar svala sumir kynfýsn sína. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er hin rafræni heimur farinn að endurspegla hið mannlega samfélag og bæta þar við nýjum víddum.

Ef við beitum sömu hagkvæmnis rökum og áhugamenn um bættar samgöngur á þenann nýja vettvang menningar, þá væri hægt að týna saman nokkur þjóðleg smáverkefni sem mér fyndist verðugt að leggja pening í, þótt að kannski sé erfitt að reikna út arðsemina í krónum:

Íslensk Orðabók

Í dag get ég flett upp hvaða ensku orði sem er, t.d. a dictionary.com, og fæ þar merkingu orðsins úr fjölmörgum orðabókum, samheitaorðabókum og orðsifjabókum. Þetta er ókeypis þjónusta sem menn nota m.a.s. stundum án þess að vita af því einsog þegar Microsoft office flettir upp orðum á netinu. Vissulega liggur gríðarleg vinna og fjárfesting í gerð orðabóka, en þær eru samt í eðli sínu þjóðfélagslega hagkvæmar, þar sem þær treysta það mál sem menn nota til að skiptast á hugsunum, sem er jú grunnur menningar. Því finnst mér að ríkið eigi að leysa slík uppflettirit undan höfundarrétti og gera þau aðgengileg á netinu öllum að kostnaðarlausu. Flest þessi rit eru nú þegar aðgengileg með þeim hætti fyrir skóla, en aðrir þurfa að borga áskrift. Það eru ekki beint peningarnir sem vefst fyrir mér í þessu tilfelli, heldur frekar hversu auðvelt sé að fletta upp upplýsingum. Ég er líka nokkuð viss um að fermingarbörnin myndu eftir sem áður fá nokkur svona eintök á hverju ári, og ætti það að tryggja einhverjar tekjur.

Google Earth

Þegar ég var krakki þótti mér alltaf gaman að landabréfum, því að í þeim bjó einhver dulúð og von um ókönnuð lönd. Hinsvegar þóttu mér landafræðitímar í skóla skelfilega leiðinlegir, og tókst mér aldrei að leggja á minnið hvað allar þessar sýslur og hreppir hétu. Landafræði styður samt við bakið á fjölmörgum öðrum fræðum og það að geta sett upplýsingar í hnattrænt samhengi eykur skilning manns á hlutum allt frá dreifingu siðmenningar yfir til hvernig viðrar á morgun. Í þessu ljósi er Google Earth stórkostlegt fyrirbæri og ég hef eytt ófáum tímum í að týnast í öllum þeim aragrúa af upplýsingum sem það gefur aðgang að.

Eitt er það þó sem hefur alltaf angrað mig, en það er hversu slæm íslensku gögnin eru. Þar eru einstaka háupplausna myndir, en mest af landinu er hinsvegar í slæmri upplausn, sumt tekið að vetri til og sumt á sumrin, og hæðarupplýsingar líka slæmar. Ég er hinsvegar nokkuð viss um að allar þessar upplýsingar séu til á tölvutæku formi í góðri upplausn í stofnunum einsog Landmælingum Íslands. Væri það ekki kjörið að veita Google aðgang að þessum gögnum? Rómantísku skáld 19du aldar kynntu undir sjálfstæðisbaráttunni með því að gera myndir af íslensku landslagi ljóslifandi í orðum. Á 21. öldinni ættum við væntanlega að gera það sama með því að leyfa börnum okkar að fljúga þar um í sýndarheimi, hvar sem þau eru annars stödd í heiminum.


Íslendingar eru duglegir að tileinka sér nýja tækni og lætur nærri að Þjóðin verði brátt öll á Facebook. Hið margslungna íslenska tensglanet loks afhjúpað, hverjir hafa sofið hjá hverjum, hvenær eða aldrei. Hverjir eru vinir, frændur eða fjendur. Þetta rafræna samfélag einskonar sósial spegilmynd litningagrunns Decode. Hugurinn og holdið komið á rafrænt form. En ef þetta sýndar-Ísland á að hafa einhverja stoð, þá er ekki verra að gefa aðgengi að því sem liggur til grundvallar menningunni okkar: málið og landið.

laugardagur, 1. desember 2007

Not Made In China

Fyrir nokkrum árum, heimsótti einn kínverskur vinur okkur þegar við áttum ennþá heima á Íslandi. Þetta var í fyrsta skipti sem sá hafði farið út úr Kína, og þarna sat hann allt í einu í rammíslensku eldhúsi nokkuð dasaður eftir ferðalagið. Svona til að dempa framandleikann þá tók ég uppá því að benda honum á allt sem væri framleitt í Kína í kringum hann. Ég var frekar undrandi yfir því hversu hátt hlutfall það reyndist vera.

Þegar ég sjálfur stóð í sömu sporum og hann ári seinna, nýlentur í Shanghai, þá virtist mér einsog spegilmyndin væri fullkomin:

Kínverska millistéttin hefur stækkað gríðarlega á síðustu árum, og nú er því spáð að uppruni hagvaxtar Kína muni á næstu árum færast frá framleiðslu og útflutningi yfir í einkaneyslu. Á hverjum degi ársins opnar einn nýr KFC staður í Kína, og þá er yfirleitt ekki langt í næsta Starbucks. Eftir þann málsverð mun fína kínverska vísitölu millistéttarfjölskyldan væntanlega keyra á nýju Toyotuni að heimsækja IKEA og velja kannski fínt SVALÖV borð til að hafa við KARLSTAD sófasettið. Á meðan beðið er geta unglingarnir bætt einhverju við Facebook síðuna sína eða flirtað á MSN úr krökkuðu iPhone símunum sínum. Umræðuefnið þeirra verður eflaust hver verður kosinn út í Chinese Idol þetta sama kvöld. Flutningabílstjórinn og heimilisfaðirinn geta svo skeggrætt hvaða hlutabréf eigi að kaupa eða selja þessa vikuna á Shanghai Stock Exchange.

Ósjálfráð viðbrögð okkar við þessu sem sönnum íslenskum bourgeois bohemians var á endanum að velja að búa í miðju gömlu kínversku hverfi, ferðast um á reiðhjólum og kaupa gömul kínversk fake-antík húsgögn. Ætli maður fari ekki svo að safna síðu hökuskeggi og taka smá taichi við sólarupprás, svona áður en götuverslanirnar fara að blasta kínverska hip-hoppinu úr getttóblasterunum.