Í hugum margra er Kissinger hinn fullkomni Machiavelli síðari hluta 20tu aldar. Hann var alltaf nefndur sem maðurinn á bak við tjöldin í forsetatíð Nixons, og seinna Gerald Fords. Almennt viðurkenndu menn að þar færi fluggáfaður maður, en á sama tíma áttu margir erfitt með að sættast við hans frekar köldu og pragmatísku sýn á heimsmálin, enda stóð hann mitt í hringiðunni á Vietnam stríðinu og seinna hinum sögulegum sáttum Bandaríkjanna við Kína.
Fyrir nokkru rak á fjörur mínar bókina sem hann samdi fyrir meira en áratug síðan og nefnd er 'Diplomacy'. Þetta er dágóður doðrantur og á köflum nokkuð torlesinn, en vinnur á. Hann fer þar yfir geóstrategíska sögu heimsins, allt frá 17.öld til okkar tíma, augljóslega með áherslu á sögu hins vestræna heims. Meirihluti bókarinnar fjallar í raun um samtímasögu hans, en fyrri hlutinn er samt ansi merkilegur.
Fyrst þegar ég byrjaði að lesa þessa bók, fór ég að hugsa um að eflaust væri gaman að sjá hversu illa hann hefði spáð um framvindu næstu ára, miðað við að bókin var gefin út 1994.
Það sem sló mig hinsvegar, og í raun gerði þessa bók að verðugu lesefni, var sú uppljómun hversu mikils virði það var að lesa hvernig _hann_ hugsaði. Ég er nefnilega nokkuð ágjarn að lesa allskyns sagnfræðibækur. Þær eru flestar skrifaðar af vel metnum sagnfræðingum, og takmark þeirra er að greina og skýra liðna sögu þannig að hún virðist hafa nokkuð vel skilgreinda framvindu.
Að lesa bók eftir stjórnmálamann sem hefur verið innvinklaður í mikilvægum pólítískum ákvörðunum segir manni meira um hvernig _hann_ skilur söguna. Það að vita hver er hugarheimur þeirra sem taka ákvarðanir segir mér einhvernveginn meira en aktúal sagan, því að það gefur ákveðna vísbendingu um hvernig arfleifð hans hugsar, og þarafleiðandi gefur mér öðruvísi lestur á samtíma fréttir en ella.
Líklega á þetta þó aðallega við samtímasögu, þar sem samtímaheimildir eru aðgengilegri. Fyrir eldri sögu verða dauðlegir menn eins og ég væntanlega áfram að reiða sig á samviskusama vinnu sagnfræðinga.
Eitt af því sem lestur þessarar bókar vekur upp hjá mér er samt hver hin geóstrategíska stefna Íslands sé? Ef við hlaupum framhjá árunum fyrir lýðveldi, þar sem meginstefnan var sjálfstæði, þá virðist stefnan síðan þá hafa verið æði hentistefnuleg. Það er helst að þátttaka í NATO og yfirráð yfir fiskimið hafi verið einhver vísir að stefnu, og kannski er það það mesta sem lítið land einsog Ísland getur vonast eftir.
Það er voða rómantískt að hugsa sér að lítil og friðsæl þjóð á útjaðri heimsins geti einvhernveginn komið með móralskt innlegg inn í öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna, en ég held samt að í realpólítísku ljósi stórþjóðanna þá séum við meira einsog og litla bóhema kaffihúsið mitt á milli KFC og McDonalds: Það er ágætt að setjast þar og drekka einn expressó af og til en þú endar samt með að fá þér hammara á hinum staðnum.
PS: Í bók Kissingers, er Ísland bara nefnt tvisvar sinnum, en reyndar í samhengi þess að hertaka Íslands af Bandaríkjamönnum var í raun fyrsta beina hernaðaraðgerð þeirra í seinni heimstyrjöldinni gagnvart Evrópu, og þannig hálfgerð stríðsyfirlýsing gagnvart Þjóðverjum. Við ættum þó samt að varast allan rembing því að þar var að ræða um danska nýlendu, einsog skýrt kemur fram í bókinni...