fimmtudagur, 31. janúar 2008

Ár Rottunnar

Eftir rúmlega viku munu Kínverjar halda uppá nýtt ár. Þetta eru um 2ja vikna löng veisluhöld sem hefjast á nýju tungli sem er sjálft nýárið og enda á fullu tungli, sem kallast hátíð luktanna. Þessi hátíðarhöld eru líklega þau allra mikilvægustu á árinu fyrir Kínverja, en aðrar asískar þjóðir halda líka uppá þessa hátíð að einhverju leyti.

Fyrsta vikan er almennt frí fyrir flesta Kínverja, og er þá venjan að fara í heimabæinn sinn sem er oft hundruði kílómetra í burtu og halda þar mikla fjölskylduveislu. Yngra fólkið úr stórborgunum hittir þá aftur foreldra, afa og ömmur, sem oft lifa í sárri fátækt í þorpunum. Gjarnan eru þá gefnar peningagjafir í svokölluðum ‘rauðum umslögum’ og er það eflaust vel þegið. Þegar rúmlega miljarður manna eru þannig komnir á faraldsfæti, þá er útkoman náttúrulega mikil örtröð og ringulreið í almenningssamgöngum. Á þessu ári mun ástandið líklega vera sínu verr en áður sökum slæms tíðarfars. Þótt að hátíðin öll gangi undir nafninu Vorhátíðin, þá er ekki beint hægt að segja að það sé komið neitt vor hér. Þetta er meira svona einsog sumardagurinn fyrsti á Íslandi. Eitthvað viðhorf til bjartsýnis.

Hér í Shanghai er búið að snjóa síðustu 5 daga eða svo, sem er algjört einsdæmi því að yfirleitt snjóar hér aldrei. Við þessar aðstæður leggst þessi 20 miljóna manna borg náttúrulega á hliðina, enda enginn hér sérstaklega búinn til að mæta vetrarhörkum. Lestarferðir falla niður og þúsundir manna sitja fastir á leið sinni í heimabæina og þurfa að hafast við í óupphituðum og yfirfullum lestarstöðvum. Allir lestarmiðar eru löngu uppseldir, enda oft keyptir upp af misyndismönnum sem selja þá svo aftur dýrum dómum rétt fyrir hátíðarnar. Hraðbrautum hefur verið lokað vegna veðurs og orkuveitan ræður vart undir því álagi þegar allir eru með rafmagshitann á fullu, þannig að sumar borgir verða rafmagnslausar í mestu kuldunum. Er svo komið að stjórnvöld mæla með að fólk sleppi því hreinlega að fara til heimahaga að sinni.

Svo bætir ekki úr skák á allar vísitölur hér hafa verið í frjálsu falli síðustu vikur einsog annars staðar í heiminum, og er þó úr sérlega háum söðli að falla, því að vöxtur verðbréfamarkaða hér síðustu 2-3 árin hefur verið stjarnfræðilegur og eflaust löngu kominn tími á leiðréttingu.

En mér virðist samt allir vera nokkuð glaðir og bjartsýnir, og ég efa það ekki að Kínverjanir verði jafnduglegir og áður að sprengja kínverja og skjóta rakettum yfir hátíðarnar. Persónulega er ég að skjótast til Íslands, þar sem von er á nýjum erfingja, og er hálffeginn að losna við öll lætin, enda er hér sprengt í marga daga í röð hvenær sem er sólarhrings. Tilgangurinn með öllum hamagangnum er að reka burt djöfla og illar vættir, og væntanlega verður þá meiri værð þegar við komum aftur.

Síðasta árið var ár gullna svínsins, sem er jafnframt það síðasta í 12 ára lotu kínverska dagatalsins. Nú tekur við ár rottunnar og byrjar þá hringurinn aftur. Þó að rottan sé ekki sérlega vinsæl á vesturlöndum, þá er hin stjörnufræðilega rotta Kínverja mikill skörungur. Hún er klár og framagjörn og vinnur hörðum höndum fyrir sig og sína. Ég held að þannig lýsi hún kínverjum nokkuð vel.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

Hnífar, börn og aðrir hættulegir hlutir

Hnífar og hnífasett af öllum gerðum hafa verið mikið í kastljósinu síðustu daga og vikur. Merkilegt nokk þá hefur það sama verið upp á teningum hjá okkur feðgunum í Shanghai. Tilefnið var ekki makíavelísk tragíkómedia Reykvískra borgarmála, heldur þessi stutti en merki fyrirlestur sem bér barst frá starfsfélaga fyrir nokkru (hann má líka skoða hér fyrir neðan). Þar mælir fyrirlesari að nafni Gever Tully fyrir fimm hættulegum hlutum sem foreldrar ættu að leyfa börnum sínum að prófa. Leika sér með eld og keyra bíl eru þar tekin sem dæmi.

Til að byrja með er vert að benda sérstaklega á þessa síðu: www.ted.com. Þetta er heimasíða árlegrar ráðstefnu sem kallast TED (Technology, Entertainment, Design) þar sem stefnt er saman spekingum af ýmsum toga og úr ýmsum áttum, en sem hafa það sammmerkt að hafa frá einhverju merkilegu og óvenjulegu að segja. Þarna má finna tölur eftir jafn ólíka einstaklinga og rithöfundinn Isabellu Allende, líffræðinginn Richard Dawkins og arkitektinn Frank Gehry. Hægt er að skoða þessa fyrirlestra frítt, og má þar finna ýmsar perlur.

Tilefni þesarra skrifa var þó þetta fyrrnefnda erindi um fimm hættulega hluti sem foreldrar ættu að leyfa börnum sínum að prófa. Í viðbót við leik með eld og bílaleik, nefnir hann hnífaleikni, spjótfimi og að taka ýmis tæki í sundur og setja saman aftur. Ég held að það sé mikil til í þessu, og við þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fékk minn fyrsta hníf. Ég hef verið líklega um 8 eða 9 ára, og var þetta forláta Swiss Army hnífur með allskyns tólum og blöðum. Ég man það vel hversu mér þótti vænt um þennan hníf og hvað hann kom að ýmsum notum í gegnum árin. Í þá daga, tíðkaðist að börn, og þá sérstaklega strákar, værum frekar með dálk en vasahníf. Þessi nýji hnífur var svona nokkuð fútúrískur miðað við það, og kunni ég vel við það.

Ég afréð því um daginn að brydda uppá þessu við eldri strákinn, enda hann orðinn 8 ára. Honum þótti þetta hin merkilegasta hugmynd, og linnti ekki látum fyrr en ég hafði lofað því að festa kaup á slíkan grip. Að sjálfsögðu bættist yngri strákurinn í kórinn við þessa uppákomu og þannig enduðum við allir þrír feðganir í slydduni hér í Shanghai í leit að Victorinox sala. Slíkt fannst loks, og voru tveir hnífar keyptir (einn minni fyrir þann yngri) og ég stóðst freistinguna að kaupa einn handa mér.

Síðan þá hafa gamlar trjágreinar ummyndast í boga og örvar hér á eldhúsgólfinu og engin stórslys á fólki enn sem komið er (nema á nágrannastráknum, en það er annað mál). Spjótkastið getur ekki verið langt undan, og væntanlega þurfum við einhverntímann að kveikja í öllu sprekinu í vorhreingerningum. Spurning hvenær þeir taka sjónvarpið eða þvottavélina í sundur, en þeir hafa amk tólin til þess. Við erum bíllaus í Shanghai, þannig að sá þáttur verður líklega að bíða betri tíma.

sunnudagur, 27. janúar 2008

Til Varnar Bönkunum

Nú sem bankar og fjármálafyrirtæki hér á Íslandi standa höllum fæti, er ekki laust að maður verði var við ákveðna Þórðargleði í samfélaginu. Það virðist vera einhver dulin ánægja við að sjá þá sem hafa hreykt sig hátt falla af stalli. Ég verð þó að viðurkenna að þrátt fyrir að ég hafi aldrei verið sérlega spenntur fyrir fjármálavafstri almennt og á yfirleitt erfitt með að skillja þá gríðarlegu þörf fyrir auðsöfnun sem virðist drífa þá sem veljast þar til starfa, þá hef ég vissa samúð með þeim.

Alþjóðleg fjármálastarfsemi einsog hún er stunduð í dag er gríðarlega erfitt og krefjandi starf. Þau hugtök og líkön sem menn eru að nota þar eru byggð á flókinni stærðfræði sem er ekki á allra færi að átta sig á. Inn í þessi líkön þarf svo að setja inn allrahanda upplýsingar og hagtölur sem mikil vinna er að sanka að sér, greina og matreiða í það form sem líkönin þurfa. Þegar við þetta bætist að öll þessi fyrirtæki eru í gríðarlegri samkeppni við hvort annað, þá er ljóst að hið hnattræna fjármalakerfi er eitt það mest kaótíska og illskiljanlega fyrirbæri sem þekkist í samfélaginu. Í dag er það svo að það er mun auðveldara að spá fyrir um veður næstu daga, en verð á olíutunnu næstu mínúturnar.

Einhverntímann las ég hugleiðingar um það að ef háþróaðar verur frá öðrum hnöttum kæmu til jarðar, myndu þær væntanlega reyna að hefja samræður við háþróuðustu veru á jörðinni. Í þeirri sögu enduðu þær með að reyna að tala við upplýsingakerfi fjölþjóðafyrirtækja frekar en einstaka menn.

Greiningardeildirnar hafa reyndar sérstaklega verið hafðar að háði og spotti, enda spáðu þær glaða sólskini þegar stormurinn skall á. Lái þeim það hver sem vill, en raunin er sú að ef einhver greiningardeild í heiminum hefði haft þessa vitneskju undir höndum fyrirfram, þá væri viðkomandi banki eflaust orðinn sá stærsti í heimi á örfáum vikum, enda hefðu þau þá geta nýtt sér þær upplýsingar til að græða hressilega á falli annara. Málið er að flest stærðfræðileg fjármálalíkön eru góð í að spá fyrir hægfara og átakalitlum breytingum en eiga mun erfiðara með að spá fyrir skyndilegum og miklum breytingum. Þessu má líkja við jarðfræði. Jarðfræðingar geta fylgst og spáð fyrir hægu risi jarðskorpu eða reki jarðfleka. Þau geta jafnvel spáð því að einhver mikill skjálfti muni eiga sér stað næstu 200 árin, en að spá því á hvaða degi og hvar er enn langt fyrir utan getu reiknilíkana.

Staðreyndin er hinsvegar að sú þekking og fjárstreymi sem kemur af bönkunum hér á landi er öllum til góðs, og er nauðsynlegur áfangi í umbreytingu Íslands í nútíma þekkingasamfélag. Þó margur einstaklingurinn verði af aurum api, þá gildir það ekki um bankanna sjálfa sem fyrirbæri. Jaðaráhrif þeirra eru mun meiri en áhrif tómrar þjóðvegasjoppu eða gat á fjalli. Það ætti því engin að fagna slæmu gengi þeirra, heldur frekar að vona að þeir veðri þetta af sér.

Greiningardeildirnar mættu hinsvegar kannski temja sér meiri hógværð í yfirlýsingum og hafa hin fleygu orð heimspekingsins Wittgensteins að leiðarljósi: “What can be said at all can be said clearly; and whereof one cannot speak thereof one must remain silent” …já, eða þá tamið sér loðið orðalag íslenskra veðurlýsinga: “Skýjað með köflum, breytileg átt, úrkoma í grennd

þriðjudagur, 22. janúar 2008

Gainsbourg á íslensku. Hluti 1

Franski tónlistarmaðurinn Serge Gainsbourg var mikill töffari. Strax á unga aldri leit hann út eins og ‘dirty old man’, með Gauloise sígarettu ævinlega hangandi úr munnvikinu og vískýglasið aldrei langt undan. Hann var gjarnan umkringdur ungum gyðjum einsog Brigitte Bardot og Jane Birkin sem hann notaði sem einskonar ‘muse’ og samdi með þeim popplög í anda síns samtíma, en þó ávalt með myrkum og pervetískum undirtónum sem komu fram í snilldartextum hans.

Honum tókst að endurnýja sig reglulega, og höfðaði þannig til margra kynslóða allt þar til hann dó fyrir um 15 árum og enn eru menn að remixa lögin hans. Þannig var hann einskonar Megas Frakka.

Ég hef stundum otað lögum með Gainsbourg að vinum mínum, sem vissulega hafa kunnað ágætlega við tónlist hans, en ég hef þó alltaf haft efasemdir um hversu raunverulega væri hægt að meta hann án þess að skilja textana. Mér fannst alltaf broslegt áður fyrr á böllum hér á Íslandi þegar menn skelltu laginu ‘Je t’aime, moi non plus’ sem lokavangalaginu og þótti afar rómantískt. Textinn er hinsvegar nánast anatómísk lýsing á bólförum. Kannski við hæfi miðað við áætlað framhald.

Ein af mínum uppháldsplötum með honum er ‘Histoire de Melody Nelson’, gefin út 1971. Þetta er stutt plata, en með sterka heildarmynd, og einsog við mátti búast af honum, er sú mynd frekar á jaðrinum á siðferðinu. Platan lýsir í stuttu máli atburðarás, þar sem hann keyrir óvart Rollsinn sinn á breska unglingsstúlku á hjóli. Hann hlúir að henni en upp úr því þróast funheitt forboðið ástarsamband sem endar með að stúlkan deyr í flugslysi.

Ég tók mig til og snaraði nokkrum textum af þeirri plötu yfir á íslensku. Þetta verður þó ekki að teljast bókmenntaleg þýðing, þar sem maðurinn er illþýðanlegur í bundnu máli með ótal orðaleikjum. Þarna er meira verið að reyna að fanga merkinguna og andrúmsloftið. Kannski það hjálpi mönnum að meta enn frekar þessa plötu.

Fyrstu tvö lögin lýsa fyrstu ‘kynnum’ hans af Melody Nelson, en svo heitir stúlkan.

1. Melody (menn geta hlustað á lagið hér)
Les ailes de la Rolls effleuraient des pylones
Quand m’étant malgré moi egaré
Nous arrivames ma Rolls et moi dans une zone
Dangeureuse, un endroit isolé

La-bas, sur le capot de cette Silver Ghost
De dix-neuf cent dix s’avance en éclaireur
La Vénus d’argent du radiateur
Dont les voiles légers volent aux avant-postes

Hautaine, dédaigneuse, tandis que hurle le poste
De radio couvrant le silence du moteur
Elle fixe l’horizon et l’esprit ailleurs
Semble tout ignorer des trottoirs que j’accoste

Ruelles, culs-de-sac aux stationnements
Interdits par la loi, le coeur indifférent
Elle tient les mors de mes vingt-six chevaux-vapeur

Princesses des ténebres, archange maudit
Amazone modern style que le sculpteur
En anglais, surnomma Spirit of Ecstasy

Ainsi je déconnais avant que je ne perdre
Le controle de la Rolls. J’avancais lentement
Ma voiture dériva et un heurt violent
Me tira soudain de ma reverie. Merde!

J’apercus une roue de vélo a l’avant
Qui continuait de rouler en roue libre
Et comme une poupée qui perdait l’équilibre
La jupe retroussée sur ses pantalons blancs

- Tu t’appelles comment?
- Melody
- Melody comment?
- Melody Nelson

Melody Nelson a les cheveux rouges
Et c’est leur couleur naturelle
Vangar Rollsins strukust við stauranna,
þegar afvegaleiddir, ég og hann,
bar okkur að hættulegum
afviknum stað

Framan við mig, á stefni þessa Silver Ghosts
frá 1910, tranar útvörðurinn sér fram,
silfruð Venus húddsins
með fínlegar slæður sem blakta til forustu

Upphafin og fjarlæg, meðan útvarpið
yfirgnæfir þögn vélargnýsins,
starir hún annars hugar á ystu sjónarrönd
og virðist sama hvert för minni sé heitið

Í smágötum og blindgötum
þar sem hvergi má nema staðar
heldur hún blæbrigðalaus á taum hestafla minna

Drottning myrkursins, fallinn engill,
nútíma amasón sem skapari hennar
nefndi ‘Spirit of Ecstasy’

Þannig reikaði hugur minn
er ég hægt missti stjórn á Rollsinum
sem bar af leið þar til þungt högg
reif mig til baka. Fjárinn!

Útundan sá ég gjörð af reiðhjóli
sem snerist enn án afláts
og líkt og dúkku sem misst hafði jafnvægið
með pilsið flett upp fyrir hvítu buxurnar.

- Hvað heitirðu?
- Melody
- Melody hvað?
- Melody Nelson

Melody Nelson var rauðhærð
og það er hennar eiginlegi litur


2. La Ballade de Melody Nelson (hlusta á lagið hér)

Ca c’est l’histoire
De Melody Nelson
Qu’a part moi-meme personne
N’a jamais pris dans ses bras
Ca vous étonne
Mais c’est comme ca

Elle avait de l’amour
Pauvre Melody Nelson
Ouais, elle en avait des tonnes
Mais ses jours étaient comptés
Quatorze automnes
Et quinze étés

Un petit animal
Que cette Melody Nelson
Une adorable garconne
Et si délicieuse enfant
Que je n’ai connue
Qu’un instant

Oh! Ma Melody
Ma Melody Nelson
Aimable petite conne
Tu étais la condition
Sine qua non
De ma raison
Þetta er sagan
um Melody Nelson
sem engan faðm hlaut
annan en minn
kemur ykkur á óvart
en þannig er það

Hún hafði ást að gefa
veslings Melody Nelson
Já, hún hafði glás af henni
en hennar dagar voru taldir
fjórtán vetra
og fimmtán sumra

Lítið villidýr
hún Melody Nelson
yndislegur hnokki
og svo unaðsfullt barn
sem ég kynntist
aðeins um stund

Æ! Mín Melody
Mín Melody Nelson
kurteisi litli kjáni
þú varst eina
haldreipi
ráðs míns

sunnudagur, 13. janúar 2008

Á að drepa feita manninn?

Stjórnlaus lest stefnir á fleygiferð inn í 5 manna hóp. Þú einn getur breytt stýristöng á síðustu stundu þannig að lestin fari á aðra teina og hlífi hópnum, en á móti kemur að á þeirri braut mun einn maður verða fyrir lestinni. Hvað gerir þú?

Stjórnlaus lest stefnir á fleygiferð inn í 5 manna hóp. Þú einn getur stöðvað ferð lestarinnar og þannig hlíft hópnum, en til þess þarftu að hrinda feitum manni sem stendur þar hjá fyrir lestinni. Hvað gerir þú?

Svo virðist mikill meirihluti mannkyns sé til í að fórna manni í fyrra tilfellinu, en ekki í því seinna, þótt að útkoman sé hin sama. Þetta eru ótvíræðar niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið yfir helstu menningarsvæði, óháð tungumálum og trúarbrögðum.

Þetta rennir ákveðnum stoðum undir þá kenningu að siðferði eða siðferðiskennd sé sammannlegur eiginleiki, og því fremur afurð náttúruvals en einstakrar menningar. Hið góða og illa orðið að fínstillingu heilaboða til að hámarka fjölda afkvæma.

Mörgum kann að hrylla við svona nöturlega neó-Darwíníska heimssýn, þótt að mér finnist hún reyndar ósköp snotur. En það er kannski óþarfi að óttast að með þessari sýn missum við endanlega alla siðferðiskennd - Það er að minnsta kosti álit Steven Pinkers, prófessor í sálfræði við Harvard sem skrifar þessa ágætis grein í New York Times: The Moral Instinct.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Um niðurrif og uppbyggingu

Dálítið rætt um niðurrif húsa í Reykjavík þessa stundina. Virðist vera svona árstíðabundin umræða.

Sú umræða er mér ekki svo fjarri. Bjó mín æskuár í litlu gömlu húsi á Lindargötunni sem fjölskyldan var voða stolt af, þar sem það var okkar fyrsta alvöru eign. Reykjavíkurborg ákvað svo einhverntímann á áttunda áratugnum að öll þessi hús væru óprýði og gerðu eignarnám í þeim, þannig að við vorum tilneydd til að selja, og húsið rifið stuttu seinna. Í tuttugu ár eftir það horfði ég á vanhirt malarplan þar sem bílar lögðu þvers og kruss þar sem ég áður hafði mínar ljúfsáru bernskuminningar. Loks voru byggðar þarna stórar ljótar blokkir, og hefur eflaust þótt mikið framfaraspor hjá einhverjum verkfræðingum og arkitektum.

Hér í Shanghai hefur borgin gengið í gegnum tryllingslega endurnýjun síðustu 20 ár. Heilu sögulegu hverfin hafa horfið, og í staðinn hafa skógar af blokkum risið. Að mörgu leyti er það orðið eitt af einkennum þessarar borgar. Engu að síður er núna komin ákveðin hreyfing til að sporna við þessu. Menn eru farin að sjá að allar þessar kröfur um 'nútímaleg' verslunarrými leiða bara til stöðnunar og einsleitni, og hver hefur ánægju að reika um marga kílómetra af 'mollum'?

Áhugaverðustu hverfin hér eru einmitt þessi svokölluðu niðurníddu hverfi, þar sem litlar verslanir og listamenn hafa fundið sér athvarf innan um blöndu af hefðbundnum kínverskum húsum og frönskum Art Deco villum frá þriðja áratug síðustu aldar. Þar þrífst hið óvenjulega og nýstárlega. Einhvernveginn deyða þessi svokölluðu 'nútímalegu rými' alla skapandi hugsun, og í staðinn fá menn hina stöðluðu glóbaliseru neytendaupplifun.

Persónulega sé ekkert sérstaklega eftir þessum húsum sem rífa á á Laugaveginum, en menn ættu samt að fara varlega í það sem þau óska sér: það sem gæti komið í staðinn gæti hæglega orðið mun verri óskapnaður.

Ég á t.d. margar góðar nýlegar minningar frá Sirkus, enda var CCP lengi vel í húsinu við hliðiná á Klapparstígnum. Ætli það komi ekki í staðinn einhver hi-design staður þar sem menn geta kúkað í Starck klósett hlustandi á einhverja lounge tónlist. Þangað myndi ég ómögulega nenna að fara.