þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Mea culpa


Mér hefur verið bent á að í færslu minni um EVE Fan Fest fyrir nokkrum vikum þá taldi ég líklegt að útflutningstekjur CCP væru sambærilegar við tekjur af loðnu. Verð ég þar að viðurkenna léléga talnavinnslu, því amk fyrir árið 2007 þá eru brúttótekjur af loðnu um 4 sinumm hærri þegar allt er saman talið. Ég var reyndar með árið 2008 í huga en jafnvel þar er líklegt að þetta sé rangt hjá mér, og kannski ekki rétt að geta sér til um núverandi ár miðað við geigvænlegar sveiflur á gengi. Fyrir 2007 verð ég víst að láta mig næga kolmunna. Kannski komumst við í ufsa eða síld á þessu ári :)

Ég vildi jafnframt árétta að því fer fjarri að þessi samanburður hafi verið gerður til að rýra hlut sjávarútvegs á Íslandi, heldur frekar að setja tölur í samhengi sem menn skilja.

En rétt skal vera rétt.

mánudagur, 24. nóvember 2008

Meira um bankaleynd


Ætlaði að skrifa um bankaleynd, en sá að Björn Bjarnason hefur einnig bryddað uppá því. Margir bankamenn láta einsog bankaleynd sé einhverskonar Hippokratesareiður sem þeir þurfa að ríghalda í. Samkvæmt þessum heimildum, þá var þetta eitthvað sem svissnenskir bankar tóku upp á um 1934 til að vernda einhverja franska miljónamæringa. Þegar menn velta þessu fyrir sér er í raun erfitt að finna nein dæmi um það hvenær bankaleynd gegnir einhverju öðru hlutverki en því að hylja eitthvað vafasamt, og í því samhengi er hún í raun bara marketing gimmick hjá bönkum til að fá viðskipti.

Kannski er eitthvað trade-off í því að ef það væri engin bankaleynd þá myndu öll vafasöm viðskipti verða enn erfiðari í rannsókn, en þá má færa rök fyrir því að í bankahruni einsog við höfum upplifað, þá megi alveg tímabundið aflétta slíka leynd.

Jafnframt má vera að erfitt yrði að auglýsa Ísland sem eitthvað bankaparadís eftir það, en ég held að sá draumur sé löngu horfinn hvort eð er.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Framtíðarsýn í greiðslustöðvun

Þetta var fyrirsögn á eftirfarandi frétt um erfiðleika Viðskiptablaðsins.

Hinsvegar sló það mig að þessi fyrirsögn lýsir ástandinu í þjóðfélaginu svo vel. Ef við þyrftum bara eina fyrirsögn yfir kreppuna hér á landi þá væri þetta hún. Hálfgert ljóð.

Framtíðarsýn í greiðslustöðvun

Ætli það verði hægt að færa gömlu framtíðarsýnina á nýja kennitölu?

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

EVE Fan-fest

image Smá góðar fréttir svona í öllu bölmóðinu: EVE fan-fest var að hefjast í Laugardalshöll. Líklega milli 1-2 þúsund af tæplega 300 þ. spilurum EVE í öllum heiminum hittast í nokkra daga á Íslandi til að loksins sjá hvor aðra augliti til auglitis og fræðast um það sem er á döfinni hjá okkur.

Við sendum um 7 manns hérna frá Kína yfir til Íslands fyrir þetta tilefni, og fyrir marga þeirra er þetta fyrsta skipti sem þeir stíga fæti á erlendri grund.

Ef einhver skyldi vera forvitinn að sjá hvernig iðnað má búa til hér á landi annan en að bræða ál og bora göng, þá ætti viðkomandi að hugleiða að kíkja á svæðið, ef það eru enn lausir miðar. Ef menn spila ekki leikinn þá verður upplifelsið væntanlega líkt því að vera á annarri plánetu, en það er jú tilgangurinn með þessu öllu saman.

Til glöggvunar á þessum iðnaði, má benda á að stærsti leikur þessarar tegundar í heiminum, World of Warcraft, veltir í dag því sem nemur hálfum fjárlögum ríkisins. Hlutur EVE í útflutningi Íslands hinsvegar er líklega sambærilegur við heildarútflutning loðnu eða kísiljárns.



(sjá seinni tíma athugasemd við þessum pósti hér)

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Ragnarök og veldisvöxtur

image Eftirfarandi stafræni fyrirlestur hefur verið á flakki á netinu undanfarið. Í 20 köflum er núverandi efnahagskrísa sett í samhengi við orkunotkun okkar, umhverfi og eðli þess veldisvaxtar sem við höfum lifað í síðustu 100 árin eða svo. Allt saman nokkuð sannfærandi framsett og minnir á boðskap Jared Diamonds á stundum.

Niðurstaðan er í meginatriðum: heimurinn er fucked, og Íslendingar líklega í stúkusæti, enda reynist síðasti kaflinn vera nokkuð greinargóð lýsing á ástandinu á Íslandi í dag án þess að það sé nefnt sérstaklega.

mánudagur, 3. nóvember 2008

RÚV og menningarleg fjárfesting

Nú er rætt um að taka RÚV af auglýsingamarkaði, og þá til að koma auglýsingarásum til hjálpar. Ég vildi hinsvegar líta aðeins öðruvísi á málin. Undanfarið hafa menn mikið rætt um nauðsyn þess að endurbyggja okkar þjóðfélag og hlúa að þeim vaxtarbroddum sem í framtíðinni geta gefið vel af sér. Menning er eitt af þeim, og það hefur sýnt sig að íslensk menning getur hæglega orðið útflutningsvara (Björk, Sigurrós, CCP, Latibær, Arnaldur Indriðason, etc..). Það er ljóst að samkvæmt lögum hlýtur hlutverk RÚV að vera stórt í þessum málum. Staðan er hinsvegar sú í dag að hluti af þeim skattpeningum og auglýsingapeningum sem koma inn í formi afnotagjalda fara í að kaupa erlent efni fyrir dýrmætan gjaldeyri, og ég fæ ekki séð hvernig þau útgjöld koma íslenskri menningu neitt við né hvernig þau geti talist fjárfesting í þá áttina.

Kannski er hugmyndin að influtta efnið sjái til þess að fólk hangi óvart nógu lengi fyrir framan sjónvarpið til að slysast til að horfa á íslenskan þátt. Einsog t.d. n.k. miðvikudag þar sem er einungis einn innlendur þáttur í boði (fyrir utan fréttir), Kiljan, og það seint um kvöld.

Mig grunar hinsvegar að kostnaðurinn við kaup á erlendu efni sé sambærilegur við auglýsingatekjurnar, sem þýði það í raun að auglýsingarnar gera lítið annað en að fjármagna erlenda dagskrágerð (hér má alveg leiðrétta mig, tókst ekki að finna neina sundurliðun á útgjöldum í ársskýrslum). Það mætti því alveg eins sleppa því, og láta RÚV einbeita sér alfarið að gerð innlends efnis (sem nota bene má alveg vera léttmeti). Ég hugsa að margir væru sáttari við nefskattinn í því tilfelli.

Það eru að eiga sér stórkostlegar breytingar á fjölmiðlaumhverfi, sem bæði gerir framleiðslu og dreifingu efnis margfalt ódýrari en áður. Það ætti því að vera hægt að framleiða mun meira af efni en áður, og gera það aðgengilegt öllum heiminum.

RÚV á sýna smá metnað til að  vera ein af útungunarstöðvum íslensks afþreyingariðnaðs og hjálpa að koma honum á framfæri heima sem erlendis frekar en að vera heimsk myndveita sem matar okkur á erlendu léttmeti.

Núverandi og tilvonandi Internet-kynslóð mun svo ekki eiga í neinum erfiðleikum með að finna sér alla þá erlendu afþreyingu sem hún girnist á öðrum stöðum en hjá RÚV sakni hún hennar.

Hér má hinsvegar aðeins sjá dæmi um einfalda útfærslu á nútímafjölmiðli: lofi.tv. Litlar myndklippur frá Icelandic Airwaves, dreift á youtube, publishað á bloggi...gæti ekki verið mikið einfaldara.